Handbolti

Al­freð hafði betur gegn Degi í troð­fullu húsi

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason er að undirbúa þýska liðið fyrir EM.
Alfreð Gíslason er að undirbúa þýska liðið fyrir EM. Getty/Marco Wolf

Króatar stappfylltu Zagreb Arena í kvöld þegar HM-silfurdrengir Dags Sigurðssonar tóku þar á móti Ólympíu-silfurdrengjum Alfreðs Gíslasonar, í hörkuleik.

Liðin mættust þarna í vináttulandsleik til undirbúnings fyrir Evrópumótið sem er handan við hornið.

Svo fór að Þýskaland vann að lokum þriggja marka sigur, 32-29, en það kom þó ekki í veg fyrir að króatískir stuðningsmenn brystu í söng í lokin og sýndu Degi og lærisveinum hans mikinn stuðning. Samkvæmt króatískum miðlum var fólk farið að streyma í höllina tveimur tímum fyrir leik og allt troðfullt þegar leikur hófst.

Stemningin minnti þannig á HM fyrir ári síðan og ljóst að króatíska þjóðin bíður spennt eftir Evrópumótinu.

Þjóðirnar mætast aftur á sunnudaginn en þá í Hannover í Þýskalandi. Miðað við leikinn í kvöld má búast við spennu þar en Króatar voru ívið betri til að byrja með og komust í 14-12 en skoruðu svo ekki síðustu átta mínútur fyrri hálfleiksins, á meðan Þjóðverjar komust í 17-14.

Króatar voru hins vegar fljótir að jafna metin í seinni hálfleik en í lokin voru gestirnir sterkari og fögnuðu sigri.

Mario Sostaric og Ivan Martinovic skoruðu sex mörk hvor fyrir Króatíu, og Luka Cindric þrjú. Johannes Golla, Renars Uscins og Juri Knorr skoruðu fimm mörk hver fyrir Þjóðverja.

EM hefst 15. janúar og þar verður Þýskaland í riðli með Austurríki, Serbíu og Spáni. Króatía er hins vegar í riðli með Svíþjóð, Hollandi og Georgíu, og gæti mætt Íslandi í milliriðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×