Enski boltinn

Svona var stór­leikurinn: Átti Liver­pool að fá víti?

Sindri Sverrisson skrifar
Miðvörðurinn stæðilegi Gabriel gaf lítið fyrir kall Florian Wirtz eftir vítaspyrnu í byrjun seinni hálfleiks.
Miðvörðurinn stæðilegi Gabriel gaf lítið fyrir kall Florian Wirtz eftir vítaspyrnu í byrjun seinni hálfleiks. Getty/Marc Atkins

Engin mörk voru skoruð í stórleik Arsenal og Liverpool en skot í slá og mögulegt brot innan vítateigs voru á meðal helstu atvika í leiknum. Atvikin má sjá á Vísi.

Í spilaranum hér að neðan má sjá helstu atvikin úr leiknum í Lundúnum í gærkvöld, sem fram fór á rennblautum Emirates-vellinum í úrhellisrigningu.

Klippa: Helstu atvik úr leik Arsenal og Liverpool

Conor Bradley var nálægt því að koma Liverpool yfir í fyrri hálfleiknum þegar skot hans yfir David Raya fór í þverslána og út.

Bradley var einnig í sviðsljósinu undir lok leiks þegar hann meiddist. Gabriel Martinelli virtist halda að Bradley væri að gera sér upp meiðslin og lét boltann falla á hann, og reyndi svo að ýta honum út af vellinum, við litla kátínu Liverpool-manna áður en Bradley var svo borinn á börum í burtu.

Florian Wirtz vildi fá vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik, þegar Leandro Trossard fór í hann innan teigs, en ekkert var dæmt og ekki þótti ástæða til þess að dómarinn skoðaði atvikið nánar á skjánum.

Arsenal var nær því að tryggja sér sigur í lok leiks og átti Gabriel skalla á síðustu sekúndu leiksins sem fór rétt framhjá.

Eftir leikinn er Arsenal með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, eftir 21 umferð af 38, en Liverpool er áfram í 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×