Innlent

Berjast við tals­verðan sinueld við Sel­foss

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Árnessýslu berjast við sinueld sunnan við Selfoss.
Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Árnessýslu berjast við sinueld sunnan við Selfoss. Vísir/Magnús Hlynur

Brunavarnir Árnessýslu vinna nú að slökkvistarfi rétt sunnan við Selfoss þar sem töluverður sinueldur brennur. Tilkynning barst um eldinn þegar klukkan var um korter yfir tvö í dag. Þetta staðfestir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu í samtali við Vísi.

„Þetta er talsverður eldur. Það er þurrt úti núna og létt gola þannig að þó að jörð sé frosin þá brennur nú sinan glatt. Það er trjárækt þarna ekki langt frá þannig ég hef nú trú á að það takist að leysa þetta hratt og örugglega. En það er þó ekki á vísan að róa í því, ef að það er einhver gustur með og sinan er þurr og frostið gerir okkur svolítið erfitt fyrir stundum varðandi vinnu með vatn,“ segir Pétur.

Slökkvistarf stendur yfir á vettvangi sinubrunans á Selfossi.Vísir/Magnús Hlynur

„En alla veganna erum við með sveit vaskra manna að vinna í þessu núna og vonum að það skili góðum árangri,“ segir Pétur. Hvorki, fólki, mannvirkjum né skepnum ætti að stafa hætta af eldinum líkt og staðan er nú að sögn Péturs.

Ekki liggur ljóst fyrir hvað olli upptökum eldsins að svo stöddu, en samkvæmt upplýsingum fréttamans á vettvangi leikur grunur á um að kviknað hafi í út frá skoteldi. Í dag er þrettándinn, sem er jafnframt síðasti dagurinn í bili þar sem leyfilegt er að sprengja flugelda. Pétur biðlar til almennings og þeirra sem hyggjast sprengja flugelda eða fara með eld í tilefni þrettándans að fara varlega, ekki síður í ljósi aukinnar hættu á sinubruna.

Þónokkurn reyk leggur einnig upp frá glóandi jörðinni.Vísir/Magnús Hlynur

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×