Neytendur

Fólk geti nýtt sér­eignar­sparnaðinn seinna á árinu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir frumvarpið á leiðinni.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir frumvarpið á leiðinni. Vísir/Anton Brink

Seinna á árinu munu íbúðareigendur aftur geta ráðstafað séreignarsparnaði inn á íbúðarlán segir fjármálaráðherra. Sem stendur býðst íbúðareigendum ekki að nýta sér leiðina en unnið er að frumvarpi í ráðuneytinu. 

Árið 2014 var samþykkt að tímabundið gætu fasteignaeigendur lagt séreignarsparnað skattfrjálst inn á höfuðstól fasteignaláns. Gildistími úrræðisins hefur verið framlengdur nokkrum sinnum síðan þá, alltaf til skamms tíma í senn. 

Í október í fyrra tilkynnti ríkisstjórnin að festa ætti úrræðið í sessi svo allir gætu nýtt sér heimildina í tíu ár og stuðla þannig að auknum fyrirsjáanleika. Því brá mörgum í brún þegar Skatturinn sendi tilkynningu á gamlársdag um að heimildin væri útrunnin. Frá og með 1. janúar væri ekki hægt að sækja um nýtinguna.

Afturvirkt frá áramótum

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir ríkisstjórnina ekki vera að ganga á bak orða sinna.

„Frumvarpið er ekki komið fram. Það er í vinnslu í fjármálaráðuneytinu. Þetta var ákvörðun sem var tekin seint á þinginu. Þegar þessi lög verða sett verða þau sett með afturvirkum hætti, þannig að þeir sem eiga rétt á þessari endurgreiðslu munu fá hana frá áramótum. En það verður ekki mögulegt að sækja um fyrr en það eru komin lög sem styðja það,“ segir Daði. 

Stutt í frumvarpið

Hann telur að frumvarpið muni líta dagsins ljós snemma á árinu, í febrúar eða mars.

„Ákvörðunin er tekin frekar seint og það þarf að vinna frumvarpið. Það er leyst með þessum hætti. Enginn á að bíða af þessu neitt tjón. Þegar þetta er orðið að lögum mun það gilda frá áramótum,“ segir Daði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×