Innlent

Ó­víst hvort hægt verði að endur­heimta jarð­neskar leifar Kjartans

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kjartan Sævar Óttarsson ferðaðist frá Svíþjóð og í gegnum Pólland áleiðis til Úkraínu þar sem hann hugðist leggja hönd á plóg í varnarstríði Úkraínu gegn innrás Rússa.
Kjartan Sævar Óttarsson ferðaðist frá Svíþjóð og í gegnum Pólland áleiðis til Úkraínu þar sem hann hugðist leggja hönd á plóg í varnarstríði Úkraínu gegn innrás Rússa. Facebook

Ekki hefur tekist að endurheimta lík íslensks karlmanns sem féll á vígvellinum í Úkraínu og óvíst er hvort hægt verði yfir höfuð að endurheimta jarðneskar leifar hans. Fjölskylda mannsins nýtur aðstoðar borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna andláts mannsins sem hét Kjartan Sævar Óttarsson og var 51 árs. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá fjölskyldunni til Vísis.

Kjartan var búsettur í Svíþjóð en gekk nýverið til liðs við úkraínska herinn og fékk fjölskylda hans staðfest á laugardaginn að hann væri látinn. Í fyrstu höfðu borist óstaðfestar fregnir af andláti hans í gegnum samfélagsmiðla frá 30.desember. 

Sjá einnig: Íslenskur maður lést í Úkraínu

„Ekki hefur verið hægt að endurheimta líkið af vígvellinum og alls óvíst hvort það verði einhverntíman hægt. Það verður tíminn að leiða í ljós. Þrátt fyrir það höfum við fengið staðfestingu á að Kjartan sé svo sannarlega látinn,“ segir í skriflegu svari frá bróður Kjartans fyrir hönd fjölskyldunnar til Vísis. 

„Borgaraþjónustan er að aðstoða okkur við að fá tengilið í Úkraínu svo hægt verði að ganga frá ýmsum málum sem eru nokkuð hefðbundin þegar fólk lætur lífið í öðrum löndum eins og að fá persónulega muni, dánarvottorð og þess háttar,“ segir ennfremur í svarinu en fjölskyldan biður um frið til að meðtaka fréttirnar af andlátinu og hyggst ekki veita viðtöl að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×