Innlent

Hótaði að nauðga manni og skallaði annan vegna húðlitar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Maðurinn hlaut fimm mánaða skilorðsbundinn dóm.
Maðurinn hlaut fimm mánaða skilorðsbundinn dóm. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur til fimm mánaða fangelsisvistar fyrir hótanir og kynferðislega áreitni annars vegar og líkamsárás hins vegar. Maðurinn skallaði annan mann í höfuðið og sló í kviðinn með billjardkjuða vegna þjóðernisuppruna og litarháttar fórnarlambsins. 

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að maðurinn hafi undir lok sumars 2023 klipið annan mann endurtekið í síðuna og reynt að fá hann til að taka utan um sig. Þá hótaði hann ítrekað að taka manninn með valdi og hafa mök við hann í endaþarm, auk þess að hóta að lemja hann. 

Í júlí 2024 hafi hann svo veist með ofbeldi að manni, skallað hann í höfuðið og slegið hann með billjardkjuða í kviðinn sem við það brotnaði. Í kjölfarið reif hann af honum gleraugu og sló hann með krepptum hnefa í andlitið. Því næst sló hann manninn í bakið með billjardkjuða þar sem hann lá varnarlaus á gólfinu. Fórnarlambið hlaut áverka á kvið, mjóbaki og mjaðmagrind en samkvæmt ákæru mun árásin hafa átt sér stað vegna þjóðernisuppruna og litarháttar fórnarlambsins. 

Þá var hann kærður fyrir tvö fíkniefnalagabrot og tvö umferðarlagabrot. 

Maðurinn játaði sök samkvæmt ákæru og segir í dómi að hann hafi fleiri dóma á bakinu. Hæfileg refsing var metin fimm mánaða fangelsi, en dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára. Þá var honum gert að greiða fyrra fórnarlambinu 400 þúsund krónur í miskabætur og allan sakakostnað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×