Innlent

Vara við hættu á sinubruna

Eiður Þór Árnason skrifar
Brennur og skoteldar munu loga víða um land í kvöld.
Brennur og skoteldar munu loga víða um land í kvöld. Vísir/Vilhelm

Slökkviliðsstjórar á Norðurlandi biðja fólk um að fara afar varlega með skotelda og opinn eld í dag vegna hættu á gróðureldum. Afar þurrt sé í veðri, gróður á Norðurlandi mjög þurr og því hætta á að eldur breiðist hratt út ef hann kemst í sinu.

Í ljósi þessa er fólk beðið um að kveikja ekki eld nærri sinu, kjarri og háu grasi og vera ekki með flugelda þar sem hætta er á að glóð úr þeim geti komið af stað sinubruna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá slökkviliðsstjórum á Norðurlandi.

Á Norðurlandi vestra er spáð norðan fimm til tíu metrum á sekúndu í dag og lítilsháttar él austantil en annars bjartviðri. Þá lægir síðdegis, léttir til og kólnar smám saman, að sögn Veðurstofu Íslands. Frost núll til sjö stig og kaldast inn til landsins. Á Norðurlandi eystra verður aðeins vindasamara eða tíu til fimmtán metrar á sekúndu en lægir og léttir til í kvöld. Frost eitt til átta stig og kaldast í innsveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×