Enski boltinn

Þjálfari Liverpool í föstum leik­at­riðum látinn fara

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arne Slot þarf að finna einhvern annan til að stilla upp föstum leikatriðum liðsins, eða taka málin í sínar hendur.
Arne Slot þarf að finna einhvern annan til að stilla upp föstum leikatriðum liðsins, eða taka málin í sínar hendur. Nick Potts/PA Images via Getty Images

Liverpool hefur fengið á sig flest mörk úr föstum leikatriðum af öllum liðum í ensku úrvalsdeildinni og Englandsmeistararnir hafa því gripið til róttækra aðgerða.

Aaron Briggs hefur verið rekinn en hann var þjálfari liðsins í föstum leikatriðum: hornspyrnum, aukaspyrnum og innköstum.

Óvíst er hvort staðgengill verði fundinn í starfið en til að byrja með munu aðrir meðlimir þjálfarateymisins sinna þeim skyldum sem hann lætur eftir.

Liverpool hefur fengið á sig tólf mörk úr föstum leikatriðum á þessu tímabili, þar af sjö úr hornspyrnum.

Aðeins fallbaráttulið West Ham hefur fengið fleiri mörk á sig úr hornspyrnum, eða tíu talsins, en ekkert lið hefur fengið á sig fleiri mörk samanlagt úr föstum leikatriðum.

Liverpool fær að meðaltali á sig 8,2 mörk úr hverjum 100 föstu leikatriðum og ofan á það hefur liðinu gengið illa að skora, eða aðeins 2,4 mörk að meðaltali úr hverjum 100 föstum leikatriðum.

Í síðustu tveimur leikjum liðsins, gegn Tottenham og Wolves, var Liverpool með þægilega 2-0 forystu áður en liðið fékk á sig mark úr föstu leikatriði sem hleypti leiknum í háaloft.

Aaron Briggs fékk starfið í fyrra þegar Arne Slot gerðist aðalþjálfari. Félagið hafði þá auglýst stöðuna lausa á LinkedIn, en ekki fengið ásættanlega umsækjendur. Briggs var því sóttur til félagsins en hefur nú verið látinn fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×