Körfubolti

Jokic lá þjáður eftir og tíma­bilið í hættu

Sindri Sverrisson skrifar
Nikola Jokic gæti hafa meiðst alvarlega í Miami í gærkvöld.
Nikola Jokic gæti hafa meiðst alvarlega í Miami í gærkvöld. Getty/Rich Storry

Það sló þögn á stuðningsmenn Denver Nuggets í gærkvöld þegar stórstjarna liðsins og þrefaldi MVP-verðlaunahafinn Nikola Jokic meiddist í hné. Óttast er að meiðsli hans gætu verið alvarleg.

„Hann fann strax að eitthvað var að,“ sagði David Adelman, þjálfari Nuggets, við blaðamenn eftir 147-123 tapið gegn Miami Heat.

Það stefndi í enn einn stórleikinn hjá Jokic, sem sárasjaldan glímir við meiðsli og hefur ekki misst af leik á þessu tímabili. Hann hafði skorað 21 stig á aðeins 19 mínútum, átt átta stoðsendingar og tekið fimm fráköst, en var greinilega þjáður þegar hann meiddist rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Eins og sjá má á myndbandinu hér að ofan þá var Jokic ekki í baráttu við neinn þegar hann meiddist. Nuggets voru í vörn og liðsfélagi Serbans, Spencer Jones, steig aftur á bak og óvart á Jokic sem spennti þá upp vinstri fótinn þannig að hann bognaði of mikið inn, í óeðlilega stöðu.

Eftir að hafa legið þjáður á gólfinu náði Jokic að standa upp og haltra af velli en spilaði ekki meira í leiknum.

„Þetta er partur af NBA. Það er algjörlega ömurlegt að menn skuli meiðast, sérstaklega þegar það er svona einstakur leikmaður eins og hann,“ sagði Adelman.

Ekki liggur fyrir hve alvarleg meiðslin eru en samkvæmt bandarískum miðlum gæti í versta falli verið um krossbandsslit að ræða og þá gæti Jokic ekki spilað aftur fyrr en á næsta tímabili. Ljóst er að það yrði gríðarlegt áfall fyrir bæði hann og Denver-liðið sem ætlar sér stóra hluti í vor og er í 3. sæti vesturdeildarinnar.

Jokic fer í myndatöku í dag og þá ætti að koma betur í ljós um hve alvarleg meiðsli er að ræða.

Hann hefur verið í frábæru formi í vetur og skorað að meðaltali 29,9 stig í leik, tekð 12,4 fráköst og átt 11,1 stoðsendingar, í 31 leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×