Enski boltinn

Skynjar stress hjá Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsenal mætir Aston Villa í stórleik á Emirates annað kvöld.
Arsenal mætir Aston Villa í stórleik á Emirates annað kvöld. getty/Mark Leech

Sérfræðingar Sunnudagsmessunnar veltu því fyrir sér hvort pressan væri farin að segja til sín hjá Arsenal, toppliði ensku úrvalsdeildarinnar.

Arsenal vann 2-1 sigur á Brighton á laugardaginn. Liðið þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum sem var sá þriðji hjá því í deildinni í röð.

Kjartan Henry Finnbogason og Haukur Harðarson ræddu stöðu Arsenal í Sunnudagsmessunni í gær.

„Þeir eru verðskuldað á toppnum en eins og eins og við vorum að sjá hafa þessir leikir og þessi frammistaða ekki beint verið sannfærandi upp á síðkastið. Það hefur legið á þeim. Þetta var leikur tveggja hálfleikja, sem er leiðinleg klisja, en orkan í Arsenal-liðinu hefur aðeins gefið eftir í undanförnum leikjum,“ sagði Kjartan Henry.

Haukur beindi athyglinni að töfum Arsenal undir lok leiksins gegn Brighton.

„[Piero] Hincapié fékk gult spjald fyrir leiktöf og þarna fer Martinelli út við hornfána. Það er 87:50 á klukkunni. Þú ert á heimavelli, 2-1 yfir, og átt bara að fara að sækja þriðja markið. Auðvitað má líka segja að þetta sé skynsamlegt,“ sagði Haukur.

Klippa: Messan - umræða um tafir Arsenal

„Þetta er, fyrir mér, smá áhyggjuefni. Ég túlka þetta smá eins og tímabil Arsenal hafa verið síðustu ár. Þið voruð með skilti um daginn sem sýndi stöðu Arsenal um áramót og þar var Manchester City oftar en ekki í 1. sæti þegar tímabilinu lauk og ég er hræddur um að það verði aftur svoleiðis í ár.“

Arsenal hefur fjórum sinnum verið á toppi ensku úrvalsdeildarinnar um jólin en í öll þau skipti varð liðið ekki meistari.

Arsenal er með tveggja stiga forskot á City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur Arsenal er gegn Aston Villa, sem hefur unnið ellefu leiki í röð, annað kvöld.

Umræðuna úr Messunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Aldrei spilað þarna en sagði strax já

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var hæstánægður með hugarfar Declan Rice og annarra leikmanna sinna í 2-1 sigrinum gegn Brighton í dag og sagði þá hafa verðskuldað mun stærri sigur.

Arsenal aftur á toppinn

Arsenal vann 2-1 sigur á Brighton & Hove Albion á Emirates-vellinum í ensku úrvalsdeildinni. Með sigrinum endurheimtir liðið toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×