Innlent

Þrír réðust á einn og höfðu af honum far­síma

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vaktin viðist hafa verið fremur róleg.
Vaktin viðist hafa verið fremur róleg. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til vegna ráns í gærkvöldi eða nótt, þar sem þrír karlmenn eru grunaðir um að hafa ráðist á einn með höggum og spörkum og stolið af honum farsíma. Brotaþoli var fluttur á bráðamóttöku en áverkar hans eru sagðir hafa verið minniháttar. Lögregla telur sig vita hverjir voru að verki og er málið í rannsókn.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar, sem voru 28 á vaktinni. Tveir gistu fangageymslur í morgun.

Lögreglu bárust tvær tilkynningar vegna óvarlegrar meðferðar á flugeldum en í öðru tilvikinu var um að ræða ungmenni sem voru sögð vera að kasta flugeldum í átt að bifreiðum. Ræddi lögregla við ungmennin. Í hinu tilvikinu var tilkynnt um einstaklinga sem voru sagðir standa á brú yfir stofnbraut og kasta flugeldum niður á götuna.

Einn var handtekinn í tengslum við innbrot í verslun og annar grunaður um að aka rafhlaupahjóli á kyrrstæða bifreið, undir áhrifum áfengis. Óhappið átti sér stað fyrir augum lögreglumanna sem voru við eftirlit.

Lögregla sinnti einnig nokkrum útköllum vegna samkvæmishávaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×