Skoðun

RÚV: Þú skalt ekki önnur út­vörp hafa!

Gunnar Salvarsson skrifar

Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna, segir á vef RÚV. Farið hefði vel á því að næsta setning væri í boðorðastíl: Þú skalt ekki önnur útvörp hafa! Í fámennu samfélagi eins og á Íslandi er aðeins þörf á einum öflugum ljósvakamiðli með skýrt hlutverk, eins og RÚV hefur sem þjóðarmiðill með þríþætt meginmarkmið: að upplýsa, fræða og skemmta.

Með lagabreytingum á níunda áratug síðustu aldar var opnað fyrir svokallaðan frjálsan útvarpsrekstur. Hugmyndin var sú að nýjar útvarpsstöðvar myndu kynda undir fjölbreytni. Raunin hefur orðið önnur. Einsleitni er lýsandi hugtak þegar hlustað er á einkareknu útvarpsstöðvarnar, auðvitað með fáeinum undantekningum. Flestar bjóða upp á lítið annað en síendurtekna vinsældatónlist og mas á misgóðri íslensku, nánast eins og diskótek. Talmálsstöðvarnar eru litlu betri og byggja því miður á öfgum, samsæriskenningum eða hugmyndafræðilegum einstrengingshætti. Þær auka skautun í samfélagsumræðunni sem við þurfum ekki á að halda.

Í aðgerðaráætlun stjórnvalda um eflingu fjölmiðlunar segir að markmiðin séu skýr: að efla innlenda fjölmiðla sem gegni mikilvægu hlutverki fyrir íslenskt samfélag, menningu, tungumál, öryggi og lýðræði. Þegar litið er á nýbirtan lista yfir einkarekna fjölmiðla sem fá ríkisstyrki fyrir árið 2025 vaknar óhjákvæmilega spurningin: hvaða útvarpsstöðvar falla undir þessa skilgreiningu? Afsakið, en ég sé ekki hvernig stöðvar sem útvarpa fyrst og fremst alþjóðlegri vinsældatónlist, oft með lágmarks innlendri dagskrárgerð, gegna lykilhlutverki fyrir íslenska tungu, menningu, öryggi eða lýðræði. Að slíkar stöðvar fái tugi milljóna króna í rekstrarstuðning af almannafé nær einfaldlega engri átt.

Auðvitað á ekki að meina neinum að reka útvarpsstöð eða miðil. Á samfélags- og hlaðvarpstímum getur sérhver einstaklingur verið fjölmiðill eða útvarpsstöð. En það er grundvallarmunur á tjáningarfrelsi og því að fá styrki úr sameiginlegum sjóðum. Skattfé á að þjóna almannahagsmunum. Punktur.

Stöldrum aftur við markmið stjórnvalda: að efla innlenda fjölmiðla sem gegni mikilvægu hlutverki fyrir íslenskt samfélag, menningu, tungumál, öryggi og lýðræði. Þessi orð eiga augljóslega við um prent- og netmiðla sem sinna fréttamennsku, rannsóknarvinnu og opinberri umræðu með vísun í miðla eins og Vísi, Heimildina, Gímaldið og aðra sem starfa á grundvelli ritstjórnarlegrar ábyrgðar og faglegra viðmiða.

Í því samhengi má með fullum rökum spyrja: þarf lítil þjóð eins og Íslendingar í raun nema einn sterkan, hlutlausan almannaþjónustumiðil? Miðil sem hefur lagaskyldu til fagmennsku, jafnvægis og menningarlegrar ábyrgðar. Líkast til er vandinn ekki sá að Ríkisútvarpið sé of stórt, heldur að RÚV sé einfaldlega of mikilvægt til að stjórnvöld veiki það enn frekar.

Höfundur er fyrrverandi frétta- og dagskrárgerðarmaður.




Skoðun

Sjá meira


×