Innlent

For­eldrar skip­verjans fá á­heyrn í Hæsta­rétti

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Axel Jósefsson Zarioh féll fyrir borð af netabáti og drukknaði í maí 2020. Hann hafði þá starfað á sjó í þrettán daga. Lík hans rak á land tæpu ári síðar.
Axel Jósefsson Zarioh féll fyrir borð af netabáti og drukknaði í maí 2020. Hann hafði þá starfað á sjó í þrettán daga. Lík hans rak á land tæpu ári síðar.

Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni foreldra sem krefja Brim hf. og TM hf. um miskabætur vegna andláts sonar þeirra sem féll fyrir borð af netabáti þegar hann starfaði hjá Brimi í maí 2020. Dómurinn byggði ákvörðun sína á því að annmarkar kunni að hafa verið á málsmeðferð Landsréttar í málinu.

Axel Jósefsson Zarioh hafði starfað hjá útgerðinni í þrettán daga þegar hann féll fyrir borð á netabáti í maí 2020, þá átján ára gamall. Leit bar ekki árangur en tæplega ári eftir hvarf Axels rak lík hans á land í Vopnafirði.

Foreldrar Axels hafa rekið mál á hendur TM og Brimi og krafist miskabóta. Nafn útgerðarinnar hefur verið nafnhreinsað í opinberum gögnum um málið en samkvæmt heimildum fréttastofu er um að ræða Brim hf.

Foreldrarnir hafa meðal annars byggt kröfu sína á því að útgerðin hafi vanrækt skyldu sína til að skrá Axel á öryggisfræðslunámskeið þegar hann hóf störf, og á því að skipstjóri og áhöfn hafi ekki brugðist við með réttum hætti í kjölfar slyssins.

Háttsemin hafi verið með þeim hætti að uppfyllt væri skilyrði um stórkostlegt gáleysi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sem kveður á um bótaskyldu þess sem af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi veldur dauða annars manns.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði útgerðina og tryggingafélagið af kröfunni í febrúar á þessu ári og Landsréttur staðfesti dóminn í október með vísan til forsendna dóms héraðsdóms.

Annmarkar á málsmeðferð Landsréttar

Foreldrar Axels byggðu málskotsbeiðni sína til Hæstaréttar á því að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi. Málið varði skaðabótaskyldu útgerðar og starfsmanna hennar og þá sönnunarstöðu sem aðstandendur sjómanna sem látast á sjó standi frammi fyrir. 

Þá hefði málið verulega almenna þýðingu á sviði einkamálaréttarfars í ljósi annmarka á málsmeðferð Landsréttar. Foreldrarnir hefðu hvorki fengið að flytja mál sitt munnlega né leiða nánar tilgreind vitni fyrir réttinn. Af sömu ástæðu væri dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi til. 

Dómur Landsréttar væri auk þess rangur að efni til. Í þeim efnum var vísað til þess að ekki hafi verið lagt til grundvallar að Axel hafi látist í slysatburði þótt það hefði verið óumdeilt í málinu. Þá hefði ekki verið leyst úr öllum málsástæðum foreldranna.

Loks byggðu foreldrarnir á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra enda varði það andlát sonar þeirra og miska.

Hæstiréttur féllst á beiðnina á þeim grundvelli að á málsmeðferð Landsréttar kynnu að vera þeir annmarkar að rétt væri að heimila áfrýjun málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×