Innlent

Lítið snjó­flóð féll á snjótroðara í Hlíðar­fjalli

Lovísa Arnardóttir skrifar
Troðarinn upp í fjalli, eins og má sjá féll flóðið við hlið hans.
Troðarinn upp í fjalli, eins og má sjá féll flóðið við hlið hans. Aðsend

Lítið snjóflóð féll á snjótroðara sem var við vinnu í Hlíðarfjalli í gær. Starfsmaður slasaði sig ekki og ekkert tjón varð á troðaranum þegar flóðið féll á hliðina á honum. Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, segir starfsmann hafa komið sér niður af fjallinu eftir flóðið.

Flóðið féll seint í gærkvöldi en starfsmenn Hlíðarfjalls sprengdu í vikunni dýnamít upp í fjalli til að koma af stað snjóflóðum. Brynjar segir að þau hafi takið að aðstæður væru öruggar en svo hafi þetta litla flóð fallið.

„Það fór pínulítið flóð á troðarann á hliðina, það er ekkert tjón og enginn er slasaður. Við vorum búnir að sprengja með dýnamíti á svæðinu og koma af stað flóðum, töldum það öruggt, og það fór lítið flóð,“ segir Brynjar en unnið var að því að opna leið upp á topp á fjallinu til að koma nýjum sprengiefnaturni fyrir eftir að dýnamítið hafði verið sprengt.

„Við vorum búnir að sprengja allt úr honum og töldum að það væri öruggt að vera þarna,“ segir Brynjar og að þetta gerist því miður stundum.

Hann segir starfsmanninn hafa farið niður um leið.

Hlíðafjall hefur verið opið frá því 4. desember. Brynjar Helgi á von á því að það verði mikið að gera í næstu viku fyrir og eftir jól. Það er lokað á aðfangadag en opið frá 12 til 16 á jóladag og annan í jólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×