Erlent

Eldur í Tívolí

Agnar Már Másson skrifar
Eldur kom upp í þaki leikhússins í Tívolí. Mynd úr safni.
Eldur kom upp í þaki leikhússins í Tívolí. Mynd úr safni. Unsplash.com/Felix Hoffmann

Eldur kviknaði í Látbragðsleikhúsinu í Tívólígarðinum í Kaupmannahöfn í morgun. Slökkvilið er á vettvangi en engan hefur sakað. Veitingastaður í Tívolí hefur verið rýmdur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæði Kaupmannahafnar greinir frá því á X að fjöldi slökkviliðsmanna hafi verið ræstur út í Tívolí til þess að bregðast við eldi sem upp kom í þaki Látbragðsleikhússins (d. Pantomimeteatret) í Tívolí. 

Hið minnsta sjö slökkviliðsbílar eru á svæðinu að sögn TV2. Danski miðillinn hefur eftir lögreglunni að útkall hafi borist klukkan 12.14 að dönskum tíma (11.14 að íslenskum tíma). 

Engan hefur sakað að sögn lögreglu. Veitingastaðurinn Grøften hefur verið rýmdur. Búið er að girða svæði í Tívolí. 

Látbragðsleikhúsið var byggt árið 1874 og er teiknað af Ove Petersen og Vilhelm Dahlerup, sem teiknuðu einnig Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×