Handbolti

Snorri kynnir EM-fara í vikunni

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson eiga sæti víst í EM-hópnum. Ómar missti af síðasta stórmóti vegna meiðsla.
Ómar Ingi Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson eiga sæti víst í EM-hópnum. Ómar missti af síðasta stórmóti vegna meiðsla. vísir/Anton

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta, mun tilkynna það á fimmtudaginn hverjir verða í íslenska hópnum sem fer til Svíþjóðar á EM í næsta mánuði.

Í byrjun þessa mánaðar var tilkynnt hvaða 35 leikmenn það yrðu sem mættu spila fyrir Íslands hönd á mótinu. Enginn utan þess lista kemur til greina, hvorki nú né þegar mótið er í gangi.

Snorri mun velja EM-hópinn af þessum lista en óvíst er hve stóran hóp hann velur. Velja má sextán leikmenn í hvern leik á EM en ætla má að hópur Snorra verði stærri.

Félagslið landsliðsmanna eru enn að spila, til að mynda í Þýskalandi þar sem spilað er á milli jóla og nýárs, og vonandi að ekki bætist á meiðslalistann. Janus Daði Smárason losnaði með undraskjótum hætti af þeim lista, eftir meiðsli í hné, og betur fór en á horfðist hjá Gísla Þorgeiri Kristjánssyni. 

Óvissa ríkir hins vegar um Þorstein Leó Gunnarsson sem meiddist í nára í leik með Porto í nóvember.

Þorsteinn, hávaxnasti leikmaður íslenska landsliðsins með sína 208 sentímetra, lék á sínu fyrsta stórmóti á HM í byrjun þessa árs og vonast til að leika á sínu fyrsta Evrópumóti í janúar.

Fyrsti leikur Íslands á EM er við Ítalíu í Kristianstad 16. janúar klukkan 17. Liðið mætir svo Póllandi 18. janúar og Ungverjalandi 20. janúar. Tvö liðanna komast áfram í milliriðla í Malmö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×