Körfubolti

Stjarnan jók á raunir Álfta­ness og Vals­menn slógu ÍR-inga út

Sindri Sverrisson skrifar
Ægir Þór Steinarsson stóð fyrir sínu í kvöld þegar Stjarnan fór áfram í bikarnum.
Ægir Þór Steinarsson stóð fyrir sínu í kvöld þegar Stjarnan fór áfram í bikarnum. Vísir/Pawel

Stjarnan vann öruggan tuttuga stiga sigur gegn Álftanesi í grannaslag í 16-liða úrslitum VÍS-bikars karla í körfubolta í kvöld. Þremur öðrum leikjum var að ljúka.

Stjarnan hefur átt góðu gengi að fagna eftir síðasta landsleikjahlé en Álftnesingar, sem misstu þjálfarann Kjartan Atla Kjartansson þegar hann hætti um helgina, hafa verið í vandræðum.

Álftnesingar bitu þó vel frá sér í kvöld og voru til að mynda yfir í hálfleik, 46-45, en þegar leið á þriðja leikhluta náðu heimamenn forystunni og voru 71-61 yfir fyrir lokafjórðunginn. Þeir þoldu það vel að missa Seth LeDay úr húsi þegar enn voru sjö mínútur eftir og unnu eins og fyrr segir öruggan sigur.

Giannis Agravanis var stigahæstur Stjörnunnar með 21 stig, Ægir Þór Steinarsson skoraði 19 og LeDay 18. Hjá Álftanesi var Haukur Helgi Pálsson stigahæstu rmeð 20 stig og David Okeke skoraði 17 en aðeins byrjunarliðsmenn Álftaness skiluðu stigum í kvöld.

Valsmenn skelltu í lás gegn ÍR

Valur sló ÍR út í úrvalsdeildarslag á Hlíðarenda. Valsmenn voru sjö stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 67-60, en skelltu þá í lás í vörninni og fengu ekki á sig körfu í tæpar sex mínútur! Staðan varð 79-60 og munurinn orðinn of mikill fyrir ÍR-inga sem töpuðu 85-69.

Keywshawn Woods skoraði 24 stig og Frank Aron Booker 22 fyrir Valsmenn, og Kristófer Acox var með 12 fráköst og 10 stig. Hjá ÍR var Tómas Orri Hjálmarsson stigahæstur með 16 stig en Jacob Falko lék aðeins ellefu og hálfa mínútu.

Blikar unnu framlengdan 1. deildarslag

Breiðablik vann 108-106 sigur gegn Haukum í framlengdum slag 1. deildarliða í Kópavogi. Haukar komust í 91-89 þegar tæp mínúta var eftir af venjulegum leiktíma en Blikar jöfnuðu og vörðust lokasókn gestanna. 

Blikar voru svo sterkari í framlengingunni og lönduðu afar sætum sigri. Sardaar Calhoun var þeirra bestur með heil 45 stig og 13 fráköst en hjá Haukum gerði Kinyon Hodges 28 stig.

Snæfell vann tíu stiga sigur gegn KV í Stykkishólmi í öðrum slag 1. deildarliða, 96-86. Jakorie Smith skoraði 35 stig og Aytor Alberto 27 stig fyrir heimamenn. Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson var stigahæstur hjá KV með 29 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×