Innlent

Óttast að fólk sleppi að kaupa lyf vegna minni greiðsluþátttöku

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Greiðslufyrirkomulag vegna lyfja mun taka breytingum um áramótin.
Greiðslufyrirkomulag vegna lyfja mun taka breytingum um áramótin. Vísir/Vilhelm

Fleiri gætu frestað eða sleppt að leysa út lyf af fjárhagsástæðum vegna breytinga sem verða á greiðsluþátttöku fólks í lyfjakostnaði um áramótin að mati hagfræðings ÖBÍ réttindasamtaka. Boðaðar breytingar skjóti skökku við í því efnahagsumhverfi sem nú sé. 

Um áramótin verða gerðar breytingar á greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í lyfjakostnaði. Í dag eru afsláttarþrepin þrjú þegar fólk kaupir lyf og eftir að fólk hefur greitt 22.800 krónur þarf það aðeins að borga 15% af verði lyfja eða minna. 

Breytingarnar fela það í sér að afsláttarþrepin verða fjögur í stað þriggja. Þá þarf fólk að greiða meira fyrir lyf sín eftir að það hefur greitt 22.800 krónur eða 40% eða minna. Upphæðirnar eru lægri hjá öldruðum, öryrkjum og börnum en prósentan þó hin sama. Áfram er miðað við sama hámarkskostnað.

Allt að 36 prósenta hækkun í einu þrepi

Gunnar Alexander Ólafsson, hagfræðingur hjá Öryrkjabandalaginu, segir samtökin hafa áhyggjur af áhrifum breytinganna.

„Við hefðum viljað sjá þessar breytingar taka gildi yfir lengri tíma. Þetta mun hitta okkar hóp illa. Þetta slær okkur ekki vel,“ segir Gunnar. 

„Þetta er töluverð hækkun í sumum þrepunum, sem gerir það að verkum að þú þarft að fara á milli þrepa til að fá aukinn afslátt. Í einu þrepinu er þetta allt að 36 prósent hækkun og það bara slær okkur ekki vel.“

Skjóti skökku við eftir langt verðbólgutímabil

Breytingarnar geti orðið til þess að fleiri fresti eða sleppi því að leysa út lyf út af fjárhagsástæðum.

„Nú þegar er allt of hátt hlutfall sem neitar sem um þetta. Það eru til kannanir sem sýna það að um 24 prósent þeirra sem eru í lágtekju- og meðaltekjuhópum eru að neita sér um læknisþjónustu og að leysa út lyf út af kostnaði. Þetta hlutfall mun hækka, það er alveg ljóst,“ segir Gunnar. 

Þá komi breytingarnar í framhaldi af þrenginum í efnahagslífinu.

„Okkur finnst það skjóta skökku við að vera að auka kostnað almennings í heilbrigðisþjónustu þegar hefur verið hér mikil verðbólga, hér hefur verið kaupmáttarrýrnun, sérstaklega hjá þeim sem hafa lægri tekjur,“ segir Gunnar.

„Þeir hafa ekki verið nógu vel varðir fyrir því verðbólguskoti sem hefur verið hér undanfarin tvö, þrjú ár. Að koma með svona hækkun í kjölfarið á því er ekki gott. Að minnsta kosti ætti að halda þessu óbreyttu.“


Tengdar fréttir

Bætir þrepi við greiðsluþátttökukerfið

Heilbrigðisráðherra hyggst gera breytingar á kerfi fyrir greiðsluþátttöku sjúkratryggðra um næstu áramót. Breytingarnar, sem eiga að spara Sjúkratryggingum Íslands fjögur hundruð milljónir króna á ári, felast í að bæta þrepi við greiðsluþátttökukerfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×