Sport

„Ég held ég viti núna hversu hröð ég er“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lindsey Vonn var heldur betur kát eftir sigurinn í St. Moritz í dag.
Lindsey Vonn var heldur betur kát eftir sigurinn í St. Moritz í dag. Getty/Alain Grosclaude

Brundrottningin er svo sannarlega snúin aftur og er að vinna heimsbikarmót þótt að hún sé komin á fimmtugsaldurinn.  Það styttist í Ólympíuleika og Lindsey Vonn er greinilega klár í baráttuna.

Vonn tryggði sér sigur í heimsbikarkeppni í bruni í St. Moritz á föstudag og vann þar með sinn fyrsta sigur í tæp átta ár – og þann fyrsta í endurkomu sinni með títanígræðslur í hægra hné eftir fimm ára hlé frá keppni.

Bandaríska skíðakempan tók forystuna með ótrúlegum 1,16 sekúndum á undan Mirjam Puchner frá Austurríki. Það sem var enn magnaðra var að Vonn var 0,61 sekúndu á eftir eftir fyrstu tvær millitímatökurnar.

Forysta Vonn minnkaði síðar í 0,98 sekúndur, sem er samt gríðarlegur munur í bruni, þegar hin lítt þekkta Magdalena Egger tók annað sætið af liðsfélaga sínum Puchner.

„Þetta var ótrúlegur dagur, ég gæti ekki verið ánægðari, frekar tilfinningaþrungið,“ sagði Vonn við svissneska ríkisútvarpið RTS.

„Mér leið vel í sumar en ég var ekki viss um hversu hröð ég væri. Ég held ég viti núna hversu hröð ég er,“ sagði Vonn.

Skömmu síðar felldi Vonn tár á verðlaunapallinum á marksvæðinu þegar bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður.

Þetta var fullkomin byrjun á Ólympíutímabilinu hennar, að ná fyrsta sigri síðan í bruni í mars 2018 í Åre í Svíþjóð.

Frábær byrjun Vonn í samstarfi við nýja þjálfarann Aksel Lund Svindal, mikla norska brunhetju sem vann Ólympíugull í Pyeongchang 2018, bendir til þess að stjörnuprýtt samstarf þeirra sé að skila árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×