Íslenski boltinn

„Fé­lag sem var í basli með að ná endum saman og greiða laun á réttum tíma“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolaj Hansen fagnar marki fyrir Víkings en þau eru orðin 62 í efstu deild sem er fyrir löngu orðið félagsmet.
Nikolaj Hansen fagnar marki fyrir Víkings en þau eru orðin 62 í efstu deild sem er fyrir löngu orðið félagsmet. Getty/George Wood

Margt hefur breyst á stuttum tíma hjá Íslandsmeisturum Víkings eins og kemur fram í nýju viðtali við markahæsta leikmann félagsins frá upphafi.

Víkingar urðu í sumar Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu í þriðja sinn á fjórum árum og hafa unnið sjö stóra titla á síðustu árum. Einn leikmaður þekkir einna best breytingarnar hjá félaginu síðan Víkingur var í besta falli miðlungslið í deildinni.

Nikolaj Hansen kom til Víkings í fyrsta sinn sumarið 2017 og hefur því upplifað breytingarnar á eigin skinni á þessum átta árum. Hann fer yfir sögu sína og Víkings í viðtali í bókinni Íslensk knattspyrna sem er komin út í 45. skiptið.

Forsíða bókarinnar Íslensk knattspyrna 2025.

Hansen ræðir þar feril sinn á Íslandi og ekki síst þá hröðu og miklu þróun sem hefur orðið í Víkinni á stuttum tíma.

Víðir Sigurðsson, höfundur bókarinnar í rúma fjóra áratugi, ræddi við Hansen í tilefni af enn einum titlinum sem hann vinnur í Víkinni.

Komið á barm þess að verða atvinnulið

„Breytingarnar sem hafa orðið á Víkingi frá því ég kom fyrst til félagsins sumarið 2017 eru ótrúlegar. Félag sem var í basli með að ná endum saman og greiða laun á réttum tíma árið 2017 er komið á barm þess að verða atvinnulið og tekur eitt skref enn í þá átt á næsta ári með því að æfa enn fyrr á daginn en áður,“ sagði Nikolaj Hansen sem er nú langmarkahæsti leikmaður Víkings í efstu deild frá upphafi og enginn hefur heldur skorað fleiri Evrópumörk fyrir íslenskt félag.

Hann var maðurinn á bak við allar breytingarnar

„Það er svo margt sem hefur breyst, stuðningsmennirnir, starfsfólkið, félagið sjálft og allt á bak við það er komið á annað stig. Ég var dálítið smeykur þegar Arnar Gunnlaugsson hætti til að taka við landsliðinu að við myndum stíga skref til baka,“ sagði Nikolaj.

„Hann var maðurinn á bak við allar breytingarnar til að byrja með. En félagið hefur styrkst mikið á þessum sex árum sem hann þjálfaði liðið. Arnar skildi við það í góðum málum og það munaði miklu að menn eins og Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason væru til staðar, félagsmenn sem eru með hjartað á réttum stað,“ sagði Nikolaj.

Valdimar Þór Ingimundarson og Nikolaj Hansen fagna hér marki saman.vísir/Diego

„Núna er hægt að horfa meira fram á við, það eru komnir meiri fjármunir inn í rekstur félagsins eftir árangurinn í Evrópukeppni, við fáum betri leikmenn til okkar en áður og við æfum fyrr á daginn. Þetta er allt á réttri leið, en menn verða samt að passa sig á að ætla sér ekki að taka of stór skref í einu,“ sagði Nikolaj. Hann nefnir sérstaklega æfingatíma Víkingsliðsins.

Frábært fyrir okkur feðurna í liðinu

„Við munum æfa klukkan tvö á daginn og það verður sérstaklega frábært fyrir okkur feðurna í liðinu. Nú getum við æft áður en við sækjum krakkana á leikskólann, getum átt góðan tíma með þeim og fjölskyldunni áður en þau fara að sofa. Þetta verður mikil breyting og ég veit að það eru fleiri íslensk lið að fikra sig í þessa átt. Stjarnan æfir snemma, Breiðablik, Valur og KR líka á sumum dögum. Þetta er mjög jákvætt og fjölskylduvænt fyrir alla,“ sagði Nikolaj.

Bækur Víðis Sigurðssonar um íslenska knattspyrnu eiga engan sinn líka í heiminum og hann hefur skrifað þessa árlegu árbók íslenskrar knattspyrnu frá og með árinu 1982. Þessi vinsæli bókaflokkur hefur komið út í 45 ár (frá 1981) því ein bók kom út áður en Víðir kom inn. 

Víðir hefur skrifað hana einn frá og með árinu 1983. Bókin í ár er 304 blaðsíður. Þar finnur áhugafólk um knattspyrnu allt sem gerðist í íslenska boltanum á árinu 2025 í máli og myndum, og einn af styrkleikum hennar er að Víðir skrifar bókina jafnóðum og atburðirnir gerast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×