Handbolti

Holland á­fram í undan­úr­slit og mætir Noregi

Aron Guðmundsson skrifar
Hollenska landsliðið hefur spilað frábærlega til þessa á HM en verkefnið sem bíður þeirra í undanúrslitum mótsins er af stærri gerðinni.
Hollenska landsliðið hefur spilað frábærlega til þessa á HM en verkefnið sem bíður þeirra í undanúrslitum mótsins er af stærri gerðinni. Vísir/Getty

Gestgjafar Hollands eru komnir áfram í undanúrslit HM kvenna í handbolta. Þetta varð ljóst eftir fimm marka sigur liðsins á Ungverjalandi í dag, lokatölur þar 28-23. 

Liðin mættust í átta liða úrslitunum í Rotterdam fyrr í dag í leik sem þær hollensku leiddu nær allan tímann. Liðið hefur verið að spila býsna vel á mótinu til þessa og hefur unnið alla leiki sína. 

Mest komst Holland í átta marka forystu um miðbik seinni hálfleiks en unnu að lokum fimm marka sigur. 

Dione Housheer var markahæst í liði Hollands í dag með átta mörk og þá gaf hún fimm stoðsendingar, frábær leikur hjá henni. 

Yara Ten Holte átti svo stórleik í marki hollenska liðsins með góða vörn fyrir framan sig. Hún varði fimmtán skot og var með markvörslu upp á 40,5 prósent. 

Í undanúrslitum fá þær hollensku risavaxið verkefni þar sem þær munu mæta norska landsliðinu sem hefur gjörsamlega valtað yfir andstæðinga sína á mótinu til þessa.

Norska landsliðið þykir líklegast til þess að fara alla leið á mótinu en liðin eru bæði taplaus fyrir leikinn í undanúrslitum sem verður spilaður í Rotterdam í Hollandi á föstudaginn kemur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×