Enski boltinn

Henry ekki hrifinn af hegðun Arsenal-manna í leiks­lok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theirry Henry sá veikleikamerki í því hvernig Arsenal-menn brugðust við því að fá á sig sigurmark með síðustu spyrnu leiksins.
Theirry Henry sá veikleikamerki í því hvernig Arsenal-menn brugðust við því að fá á sig sigurmark með síðustu spyrnu leiksins. Getty/Shaun Clark/Alex Pantling

Arsenal verður í sviðsljósinu í Meistaradeildinni í kvöld og leikmenn toppliðs ensku úrvalsdeildarinnar verða vonandi búnir að jafna sig eftir grátlegt tap á móti Aston Villa um síðustu helgi.

Villa-menn skoruðu sigurmarkið með síðustu spyrnu leiksins og viðbrögð Arsenal-manna voru eins og þeir hefðu tapað úrslitaleik.

Einn af þeim sem voru ekki hrifin af hegðun Arsenal-manna í leikslok var goðsögn félagsins, Thierry Henry.

Henry var ekki ánægður með hvernig Arsenal-mennirnir hrundu í grasið eftir sigurmark Emi Buendia.

„Óttinn við að vinna er stundum sterkari en óttinn við að tapa,“ sagði Thierry Henry en hann sagðist hafa rætt við Declan Rice eftir leikinn og sagt honum að þeir yrðu að trúa því að þeir geti klárað titilinn.

Arsenal situr enn í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar en þetta var fyrsta tap liðsins síðan í lok ágúst.

Liðið er í frábærum málum í Meistaradeildinni með 15 stig í húsi af fimmtán mögulegum og markatalan er 14-1. Mótherji kvöldsins er Club Brugge á útivelli. Belgíska liðið er í 27. sæti með aðeins einn sigur og fjögur stig eftir fimm leiki í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×