Innlent

Sauð upp úr við at­huga­semd um að vændis­konan væri karl

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karlmaðurinn kom á fund vændiskonunnar á hóteli í Reykjavík í maí 2023. Þau ætluðu að hittast með  „kynferðislegan leik“ í hug að sögn vændiskonunnar.
Karlmaðurinn kom á fund vændiskonunnar á hóteli í Reykjavík í maí 2023. Þau ætluðu að hittast með „kynferðislegan leik“ í hug að sögn vændiskonunnar. Vísir/Vilhelm

Erlendur karlmaður hefur verið dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir kaup á vændi og að hafa ráðist á vændiskonuna sem hann taldi vera karlmann. Árásarmaðurinn bar fyrir sig neyðarvörn sem dómurinn tók til skoðunar en taldi hann þó hafa gengið of langt. Athygli vekur að héraðsdómur nafngreinir karlmanninn sem er nýbreytni í vændiskaupamálum.

Það var í maí 2023 sem kona á svölum í Reykjavík varð vör við hálfnakta konu við hótel í Reykjavík sem leitaði hjálpar. Þegar lögreglu bar að garði sagði fáklædda konan að karlmaður hefði ráðist á sig og stolið síma hennar og reiðufé. Hann hefði svo hlaupið á brott.

Í ljós kom að konan var vændiskona og þau höfðu mælt sér mót á hótelherbergi í höfuðborginni. Þangað hefði hann mætt, hún verið fáklædd og hann sett umsamdar þrjátíu þúsund krónur í reiðufé á mublu í herberginu.

Vændiskonan sagði að allt hefði farið í háaloft þegar karlmaðurinn hefði verið ósáttur við að þurfa að nota smokk. Karlmaðurinn sagði hins vegar að runnið hefðu á hann tvær grímur þegar hann fór að gruna að vændiskonan væri í raun karlmaður.

Konan lýsti því hjá lögreglu að maðurinn hefði tekið smokkinn af sér og orðið árásargjarn. Hún hefði tekið upp símann og hótað að hringja á lögreglu. Við það hefði maðurinn tekið af henni símann og kýlt hana með krepptum hnefa. Hún hefði dottið á gólfið og maðurinn ráðist á hana svo mjög að hún missti meðvitund. Þegar hún hefði vaknað hefði allt verið blóðugt í kringum hana og maðurinn farinn á brott.

Karlmaðurinn kom fyrir dóminn og sagði átökin hafa byrjað þegar hann hefði spurt konuna hvort hún „væri ekki kvenkyns“. Vændiskonan hefði brugðist ókvæða við, farið og sótt málmhlut sem hann taldi vera hníf og ráðist að honum. Vændiskonan hefði kýlt hann og hann brugðist við með því að kýla hana þrjú til fjögur högg þar til hún missti meðvitund.

Vændiskonan kom ekki fyrir dóminn en um er að ræða farandverkakonu. Í dómnum er lögregla gagnrýnd fyrir að hafa ekki tekið skýrslu af konunni fyrir dómi þar sem verjandi mannsins gæti spurt lykilspurninga. Vegna þessa var framburður konunnar í skýrslu hjá lögreglu ekki lagður til grundvallar.

Karlmaðurinn játaði að hafa kýlt konuna þrisvar til fjórum sinnum í samræmi við áverka á konunni. Karlmaðurinn sagðist þó hafa verið í neyðarvörn og krafðist sýknu vegna þess. Samkvæmt almennum hegningarlögum er það verk refsilaust sem menn vinna af neyðarvörn að því leyti sem nauðsynlegt er til að verjast eða afstýra ólögmætri árás. Þó ber að gæta þess við neyðarvörn að beita ekki vörnum sem séu augsýnilega hættulegri en árásin sjálf.

Þótt karlmaðurinn hefði talið að konan hefði verið með hníf þá fannst enginn hnífur á vettvangi. Konan fór þó í tvígang út af herberginu og hefði getað losað sig við hnífinn í þau skipti. Lögregla rannsakaði ekki vettvanginn með tilliti til þess hvort þar hefði verið hnífur. Var lagt til grundvallar að konan hefði verið með hlut úr málmi þótt ekki væri hægt að fullyrða að um hníf væri að ræða.

Þá kom til skoðunar að karlmaðurinn sagðist hafa óttast um líf sitt enda hefði vændiskonan verið talin um tveir metrar á hæð og hundrað kíló. Þá bar einn lögreglumaðurinn að hún hefði verið með getnaðarlim og karlmannleg að vexti. Dómari taldi bæði tvö því hafa verið áþekk á hæð og þyngd. Því væri ekki hægt að fullyrða að annað hefði haft líkamlega yfirburði yfir hitt. Þá hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að vændiskonan hefði átt upptökin að átökunum með því að veitast að manninum og slá hann.

Féllst dómurinn á það með manninum að honum hefði verið nauðsynlegt að ákveðnu marki að grípa til líkamlegrar valdbeitingar til að verjast árásinni enda þau jöfn að burðum og hún mögulega með hníf. Á hinn bóginn hefði ekki verið sýnt fram á að karlmaðurinn hefði þurft að kýla vændiskonuna ítrekað í höfuðið svo hún rotaðist. Þær varnarathafnir hefðu verið óþarflega hættulegar fyrir líf hennar enda hefði hann getað opnað dyrnar og farið í burtu.

Þótti þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi hæfileg refsing fyrir karlmanninn. Athygli vekur að ákærði er nafngreindur í dómnum sem er nýbreytni hér á landi þegar kemur að dómum yfir vændiskaupendum. Rætt hefur verið um það um árabil af hverju dómstólar birta ekki nöfn vændiskaupenda. Þeir sem helst hafa talað fyrir því hafa nefnt þann fælingarmátt sem felist í því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×