Handbolti

Stjörnur Kol­stad þurfa að taka á sig launa­lækkun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigvaldi Guðjónsson er fyrirliði Kolstad sem þarf að ráðast í niðurskurð.
Sigvaldi Guðjónsson er fyrirliði Kolstad sem þarf að ráðast í niðurskurð. getty/Ruben De La Rosa

Þeir leikmenn sem eru með hæstu launin hjá norska handboltaliðinu Kolstad þurfa að taka á sig launalækkun. Þrír Íslendingar leika með Kolstad.

Sigvaldi Guðjónsson er fyrirliði Kolstad og samkvæmt TV 2 í Noregi er hann einn þeirra sem þurfa að taka á sig launalækkun. Hinir eru Andreas Palicka, Gøran Johannessen, Magnus Gullerud og Simen Lyse.

Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigurjón Guðmundsson leika einnig með Kolstad sem hefur lagt mikið í sölurnar síðustu ár til að koma sér í fremstu röð í Evrópu. 

Kolstad varð Noregsmeistari 2023 og 2024 og bikarmeistari 2022, 2023 og 2024 en árangurinn í Meistaradeild Evrópu hefur látið á sér standa.

Þá hefur Kolstad átt í fjárhagsvandræðum og skærustu stjörnur liðsins hafa áður þurft að taka á sig launalækkun. Þá hafa sterkir leikmenn á borð við Janus Daða Smárason, Magnus Rød, Torbjørn Bergerud og Sander Sagosen yfirgefið Kolstad á síðustu árum.

Í samtali við TV 2 vildi framkvæmdastjóri Kolstad, Jostein Sivertsen, ekki fara nákvæmlega út í hvers eðlis niðurskurðurinn hjá félaginu yrði en sagði að unnið væri að nýrri íþróttastefnu hjá því. Kolstad yrði ekki bara að vera samkeppnishæft inni á vellinum heldur einnig fjárhagslega sjálfbært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×