Fótbolti

Kristall skoraði í sögu­legum sigri á FCK

Sindri Sverrisson skrifar
Kristall Máni Ingason hefur verið sjóðheitur að undanförnu.
Kristall Máni Ingason hefur verið sjóðheitur að undanförnu. vísir/Anton

Kristall Máni Ingason stimplaði sig út í jólafrí með því að skora seinna mark Sönderjyske á Parken í dag, í sögulegum 2-0 sigri liðsins á FC Kaupmannahöfn, í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Sönderjyske hafði aldrei áður unnið FCK á Parken og lýsa danskir miðlar tapi danska stórveldisins, og gengi þess í deildinni, sem fíaskói.

Lirimi Qamili skoraði fyrra mark Sönderjyske á 43. mínútu og Kristall náði svo að bæta við öðru rétt fyrir hálfleik.

Kristall hefur þar með skorað eða lagt upp mark í síðustu fimm leikjum Sönderjyske sem komst upp fyrir FCK, í þessari síðustu umferð fyrir vetrarhlé fram í febrúar. Sönderjyske situr nú í 4. sæti með 29 stig eftir 18 leiki en FCK er með stigi minna í 5. sæti.

Kristall og Daníel Leó Grétarsson voru báðir í byrjunarliði Sönderjyske í dag en Viktor Bjarki Daðason kom inn á sem varamaður hjá FCK á 62. mínútu. Rúnar Alex Rúnarsson sat sem fyrr á varamannabekk liðsins.

Elías Rafn Ólafsson fékk á sig þrjú mörk í 3-3 jafntefli Midtjylland gegn Viborg á útivelli, og er Midtjylland nú fjórum stigum á eftir toppliði AGF sem vann Randers 2-1 á útivelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×