Ár­mann - Þór Þ. 110-85  | Ár­menningar komnir á blað

Pálmi Þórsson skrifar
594144496_25610905365202232_6164232210067924360_n
Vísir/Hulda Margrét

Ármann vann sinn fyrsta sigur í Bónus deild karla í körfubolta í vetur í níundu tilraun. 110-85 urðu lokatölur gegn Þór frá Þorlákshöfn í Laugardalshöll í kvöld.

Fyrir leikinn áttu Þórsarar möguleika á að koma sér upp við hlið Stjörnunni og ÍA. Því var um gríðarlega mikilvægan leik að ræða fyrir gestina sem hafa verið í brasi þetta tímabilið.

Ármenningar börðust meira en gestirnir og uppskáru loks sigur.Vísir/Hulda Margrét

Leikurinn fór af stað með látum og var lítið um varnarleik fyrstu mínúturnar. Bæði lið fengu mikið af opnum skotum sem þau voru að setja. Þegar ein mínúta var eftir af fyrsta leikhluta var staðan jöfn 26-26 en þá kom Lagio Grantsaan með þrist.

Strax í næstu sókn tók Bragi Guðmundsson við boltanum og tróð. Jacoby Ross fór í sókn hinu megin og ætlaði að taka síðasta skotið sem hann klikkar á. Bragi Guðmundsson tekur frákastið með 2 sekúndur eftir af klukkunni og lúðrar boltanum yfir völlinn og beint ofan í.

Ármenningar fagna Braga Guðmundssyni sem stóð upp úr í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Átta stig í röð á innan við mínútu og Ármenningar yfir 34-26 eftir fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta héldu heimamenn uppteknum hætti og hreinlega völtuðu yfir gestina frá Þorlákshöfn. Bragi og Daniel Love fengu að gera nokkurn veginn það sem þeir vildu sóknarlega ásamt því að mennirnir í kringum þá voru að hitta mjög vel. Hinu megin á vellinum þá komust Þórsarar lítið á körfuna og sættu sig við þriggja stiga skotið. Allt í einu um miðbik annars leikhluta var staðan orðin 52-30 og Ármenningar miklu betri.

En akkúrat á þeim tímapunkti virtust þetta ætla að snúast. Þórsarar fóru að spila kraftmeiri vörn og Ármenningar fóru aðeins að slaka á. Staðan í hálfleik var þó 59-45 og Ármann algjörlega með þetta í hendi sér.

Hart barist.Vísir/Hulda Margrét

Í seinni hálfleik fengu Þórsarar tækifæri að koma sér almennilega inn í leikinn. Ármenningar hættu að hitta fyrir utan og þeir fóru að finna nokkra glufur sóknarlega til að lauma inn stigum.

Það mátti finna fyrir smá stressi í liði Ármanns en þeir gerðu vel að bíta frá sér. Þeir tóku eitt leikhlé og tóku aftur stjórn á leiknum.

Þeir hittu ekki vel en þeir gjörsamlega drápu Þórs í sóknarfráköstum og virkilega lögðu inn vinnuna til þess að vinna þennan leik 110-85.

Atvik leiksins

Atvik leiksins er klárlega langa skotið frá Braga Guðmundssyni en það er hægt að færa rök fyrir því að þetta hafi verið fyrsta skrefið í þessum leik. Allavega var það þessi síðasta mínúta í 1.leikhluta stór hluti af forystunni sem myndaðist.

Stjörnur og skúrkar

Bragi Guðmundsson átti stórleik fyrir sína menn. Skoraði 28 stig. Skúrkarnir eru allir í Þórsliðinu en þeir áttu ekkert skilið að fá úr þessum leik.

Dómarar

Sigmundur Már Herbertsson, Jón Þór Eyþórsson og Dominik Zelenski stóðu vaktina með prýði. Flott flæði og bara venjulegur skrifstofu dagur hjá þeim

Stemning og umgjörð

Það var flott stemning í Laugardalnum í kvöld en við verðum að fá fleira fólk á völlinn. Plássið er allavega nóg.

Viðtöl

„Bara gleði”

Steinar Kaldal, þjálfari Ármanns, var fyrst og fremst glaður með sigurinn.

„Bara gleði að ná fyrsta sigrinum sem Ármann nær í efstu deild síðan hvað? 1981? Bara frábæri tilfinning.”

En Ármenningar hafa verið að bæta sig leik frá leik og það hlaut að fara koma að sigri og þeir hittu heldur betur á leikinn í kvöld.

Steinar Kaldal, þjálfari Ármanns.Vísir/Hulda Margrét

„Við fórum yfir nokkra hluti í byrjun vikuna til að einfalda okkar leik. Vinna að ákveðnum gildum sem við höfum ekki verið að gera þrátt fyrir að hafa talað um þau í byrjun tímabils. Mér fannst menn bara mæta tilbúnir og fylgja þessum gildum. Það var meiri ró yfir leik okkar og kannski full mikil á tímabili. En vörnin mjög góð. Annað sinn sem við fáum undir 100 stig á okkur og við skorum heilmikið. Mér fannst liðið bara bregðast vel við því sem ég og Oddur Birnir aðstoðarþjálfari minn töluðum um í byrjun vikuna og unnum síðan í út vikuna.” Sagði Steinar en þessi fullmikla ró varð næstum að örvæntingu í 3.leikhluta en Ármenningar gerðu vel.

„Tókum aðeins leikhlé og fórum yfir þetta. Menn komu inn og gerðu rétta hluti þá. Mér fannst koma svo aftur smá örvænting í fjórða. En aftur tókum við bara leikhlé aftur og strákarnir gerðu vel.” Bætti Steinar svo við. En að ná í fyrsta sigurinn á tímabilinu sem nýliði getur létt mikið á mannskapnum.

„Bara gleði. Við vissum að þetta er erfið deild svo ekki léttir það er bara gleði og hamingja,” sagði Steinar en á eftir fyrsta sigrinum hafa opnast gáttir hjá nýliðum.

„Kannski ekki flóðgáttir en einhverjir dropar. Það er mikil bæting á okkar leik. Við þurfum bara að halda áfram með það. Við tökum þetta leik fyrir leik eins og ég hef sagt hérna marg oft. Einn sigur frábært og mikil gleði. En síðan bar heldur áfram baráttan.”

En hún einmitt gerir það. Það er stutt til jóla og Ármenningar eiga eftir að spila 3 leiki fram að þeim.

„Það er bara keyrsla. Eigum Grindavík tvisvar í röð í Grindavík. Eru þeir ekki þarna einhversstaðar á toppnum þannig að það verður hörkuleikur. Verður gaman að spila þar sérstaklega í Gindavík fyrir framan fólkið þar. Svo er lokaleikur fyrir jól á móti ÍA. Svo höldum við bara áfram að hamra á hlutum og komum sterkir á nýju ári,” sagði Steinar að lokum.

„Linir varnarlega og hikandi sóknarlega”

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.Vísir/Hulda Margrét

Lárus Jónsson þjálfari Þórs var ósáttur með spilamennsku sýna manna.

„Hrikalega lélegur leikur hjá okkur fannst mér. Hrikalega linir varnarlega og hikandi sóknarlega.”

En Ármenningar hittu mjög vel í kvöld.

„Þeir sköpuðu sér bara góð skot og við vorum svo linir að það leit út fyrir að vera þægilegt fyrir þá. Svo þegar við vorum að reyna að klóra í bakkan þá fannst mér við ekki geta náð fráköstum. Þannig við náðum aldrei neinu áhlaupi. Og mér fannst við vera að sleppa opnum skotum og leita að einhverju öðru. Þannig linir varnarlega og hikandi sóknarlega.”

En Þórsarar fengu nokkur tækifæri til að koma sér inn í leikinn sem þeir bara nýttur sér alls ekki.

„Bæði voru við að klúðra skotum sem við hittum vanalega og svo bara fannst mér við ekki vera búnir að vinna okkur inn fyrir því að vinna þennan leik. Ármann átti bara skilið að vinna þennan leik,” bætti Lárus við en hann hefur gert eina breytingu á liðinu. Munum við sjá fleiri fyrir jól?

„Ég vil bara sjá hvernig leikmenn koma til baka eftir þennan leik,” sagði Lárus að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira