Handbolti

Sjötta tap Framara í röð en Birgir Steinn í Evrópustuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birgir Steinn Jónsson átti góðan leik með Sävehof í kvöld
Birgir Steinn Jónsson átti góðan leik með Sävehof í kvöld IK Sävehof

Framarar enduðu Evrópudeildina í ár stigalausir á botni síns riðils eftir skell í lokaleiknum í Noregi í kvöld. Birgir Steinn Jónsson átti hins vegar flott Evrópukvöld.

Norska félagið Elverum vann fjórtán marka sigur á Fram, 38-24, eftir að hafa verið 23-11 yfir í hálfleik.

Norðmennirnir skoruðu fjögur fyrstu mörk leiksins og svo sáust tölur eins og 8-3, 13-6 og 19-8 í fyrri hálfleiknum.

Max Emil Stenlund var markahæstur hjá Fram með átta mörk en Viktor Sigurðsson skoraði sex mörk. Dánjal Ragnarsson var síðan með þrjú mörk.

Tryggvi Þórisson tók eitt skot fyrir Elverum en klikkaði á því.

Íslandsmeistararnir töpuðu öllum sex leikjum sínum en það var barátta um efstu tvö sætin milli hinna liðanna í riðlinum.

Porto sá hins vegar til þess að Elverum komst áfram því portúgalska liðið vann á sama tíma nítján marka stórsigur á Kriens, 44-25, á útivelli. Kriens situr því eftir en Elverum og Porto fara áfram.

Birgir Steinn Jónsson skoraði sjö mörk og var markahæstur í sínu liði þegar Sävehof vann fjögurra marka útisigur á danska félaginu Fredericia, 33-29. David Sandberg skoraði líka sjö mörk.

Birgir var sjóðheitur framan af leik en klikkaði á þremur síðustu skotum sínum í leiknum. Birgir átti líka fjórar stoðsendingar og koma því að ellefu mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×