Erlent

Fyrir­skipar ítar­legar rann­sóknir á öllum Afgönum í Banda­ríkjunum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Trump vill rannsaka alla Afgana sem komið hafa frá því Bandaríkjaher hörfaði frá landinu.
Trump vill rannsaka alla Afgana sem komið hafa frá því Bandaríkjaher hörfaði frá landinu. AP Photo/Alex Brandon

Maðurinn sem skaut á tvo þjóðvarðliða í Washington DC í gær er frá Afganistan og kom til Bandaríkjanna árið 2021. Þetta sagði Donald Trump forseti í ávarpi í gærköldi frá Flórída þar sem hann var staddur þegar árásin varð gerð. Öll afgreiðsla hælisumsókna frá Afganistan hefur nú verið stöðvuð og Trump fyrirskipar ítarlegar rannsóknir á þeim Afgönum sem þegar eru í Bandaríkjunum.

Tugir þúsunda Afgana hafa komið til Bandaríkjanna síðustu árin eftir að Bandaríkjaher hörfaði frá landinu árið 2021 eftir margra ára stríðsrekstur. Þá lagði ríkisstjórn Joe Biden áherslu á að koma fólki úr landinu sem hafði aðstoðað Bandaríkjamenn í baráttunni við Talíbana, sem nú hafa tekið völdin að nýju. Margir Afganar óttuðust hefndaraðgerðir heimafyrir og flúðu þá til Bandaríkjanna.

Forsetinn sór þess einnig eið að árásarmaðurinn muni gjalda fyrir dýru verði en hann er nú í haldi lögreglu. 

Trump sagði að undir forystu Joe Biden á sínum tíma hafi ekkert eftirlit verið haft með þeim sem komu til Bandaríkjanna frá Afganistan og að nú verði að rannsaka hvern einasta innflytjanda frá Afganistan sem hafi komið frá þessum tíma. Hann bætti svo við að hann muni einnig sjá til þess að allir útlendingar sem ekki passa inn í bandarískt samfélag, verði sendir úr landi.


Tengdar fréttir

Tveir þjóðvarðliðar skotnir nálægt Hvíta húsinu

Tveir einkennisklæddir hermenn í þjóðvarðliði Bandaríkjanna eru í lífshættu eftir að hafa verið skotnir skammt frá Hvíta húsinu í miðbæ Washington D.C. rétt fyrir klukkan 20 á íslenskum tíma. Meintur árásarmaður hefur verið handtekinn en hann er einnig særður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×