Handbolti

Fjór­tán marka tap Fram í Portúgal

Sindri Sverrisson skrifar
Theodór Sigurðsson skoraði fjögur mörk í Portúgal í kvöld.
Theodór Sigurðsson skoraði fjögur mörk í Portúgal í kvöld. vísir/Anton

Íslands- og bikarmeistarar Fram urðu að sætta sig við fjórtán marka tap í Portúgal í kvöld, 44-30, í næstsíðasta leik sínum í Evrópudeildinni í handbolta. 

Landsliðsmaðurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson er frá keppni vegna meiðsla og gat því ekki mætt Frömurum í kvöld en engu að síður vann Porto afar öruggan sigur. Munurinn var þegar orðinn þrettán mörk í hálfleik, 23-10.

Dánjal Ragnarsson var markahæstur hjá Fram með átta mörk en Arnar Snær Magnússon, Viktor Sigurðsson og Theodór Sigurðsson skoruðu fjögur mörk hver.

Porto er því efst í D-riðli með átta stig en Fram enn án stiga eftir fimm leiki. Elverum og Kriens eru með sex stig eftir 38-34 útisigur norska liðsins í kvöld, þar sem Tryggvi Þórisson var í liði Elverum.

Fram á nú aðeins eftir leik sinn við Elverum í Noregi, næsta þriðjudag.

Einar Bragi og Kristianstad í góðum málum

Í Svíþjóð skoraði Einar Bragi Aðalsteinsson tvö mörk í góðum 34-26 sigri á Toulouse. Kristianstad er því í 2. sæti F-riðli með sjö stig, stigi á eftir Vardar og tveimur á undan Sesvete fyrir lokaumferðina en þá mætast Kristianstad og Sesvete í Svíþjóð.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði svo sex marka Kadetten í 30-27 tapi gegn Ademar León á Spáni. Kadetten er því neðst í H-riðli með fjögur stig en aðeins stigi á eftir Nexe og Ademar León, og tviemur á eftir Partizan fyrir afar spennandi lokaumferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×