Sport

„Ég vil ekki gera mér of miklar væntingar“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andrea Jacobsen reiknar ekki með því að mæta til leiks fyrr en á sunnudaginn, í fyrsta lagi. 
Andrea Jacobsen reiknar ekki með því að mæta til leiks fyrr en á sunnudaginn, í fyrsta lagi.  vísir

Andrea Jacobsen tók þátt á æfingu íslenska landsliðsins í dag, í fyrsta sinn síðan hún sleit liðband í ökkla.

Andrea hefur verið í kapphlaupi við tímann að koma sér í stand fyrir HM en verður líklega ekki með í fyrstu tveimur leikjunum.

Andrea stefnir hins vegar á að stíga á gólfið þegar Ísland mætir Úrúgvæ á sunnudag, í þriðja og síðasta leik riðlakeppninnar áður en milliriðlar taka við.

„Það er allavega planið, en svo veit maður aldrei. Ég vil ekki gera mér of miklar væntingar og ekki liðinu heldur, þannig að við vonumst bara eftir sunnudeginum.“

Sá leikur verður líka að öllum líkindum sá mikilvægasti í riðlinum. Ísland er lægra skrifað en Þýskaland og Serbía, en stefnir á að vinna Úrúgvæ til að tryggja þriðja sætið í riðlinum og komast áfram í milliriðil í Dortmund.

Andrea gæti því komið öflug inn á ögurstundu.

„Það er allavega planið“ sagði skyttan mikilvæga.

Þó Andrea þori engu að lofa um sína þátttöku er hún auðvitað mjög spennt fyrir því að spila mögulega með íslenska landsliðinu í Porsche höllinni í Stuttgart.

„Við [í liði Blomberg/Lippe] spiluðum hérna í Final Four í bikarnum í fyrra, þannig að maður kannast við höllina og veit hvernig stemningin verður… Hvað þá með fulla höll á móti Þýskalandi.“

Klippa: Andrea stefnir á að spila gegn Úrúgvæ

Opnunarleikur Þýskalands og Íslands hefst klukkan fimm á morgun og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Íþróttadeild Sýnar er í Stuttgart og mun fylgja landsliðinu vel eftir á meðan mótinu stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×