Innlent

Á­kærður fyrir til­raun til manndráps í Reykja­nes­bæ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin átti sér stað í Reykjanesbæ í júní.
Árásin átti sér stað í Reykjanesbæ í júní. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og hótanir í Reykjanesbæ í júní síðastliðnum. Fórnarlambið var karlmaður á sjötugsaldri en krafist er miskabóta upp á fimmtu milljón króna fyrir hönd hans.

Árásin var gerð um tíuleytið föstudagskvöldið 20. júní og er árásarmaðurinn í ákæru sagður hafa hótað eldri manninum lífláti og skömmu síðar reynt að svipta hann lífi með því að leggja ítrekað til hans með hníf í höfuð, búk og útlim.

Vísir fjallaði um málið í ágúst þar sem fram kom að fórnarlambið hefði verið fjölskyldufaðir sem hefði ætlað að reka manninn á brott. Árásarmaðurinn hefði verið kominn að heimili fjölskyldunnar vegna hlaupahjóls sem sonur föðurins var að gera við.

Eldri maðurinn hlaut djúpan skurð á innanverðum hægri framhandlegg og fjölmarga aðra styttri skurði um allan líkamann, svo sem á kvið, eyra, hálsi og fingrum. Hann var fluttur á Landspítalann með hraði með meðvitund.

Ákærða er einnig gefið að sök brot á fíkniefna- og vopnalögum með því að hafa verið með á heimili sínu marijúana, amfetamín, tóbaksblandað kannabis og alls kyns frammistöðubætandi töflur. Þá fundust haglaskot á heimili hans.

Fram kom í gæsluvarðhaldsúrskurði í sumar að ástand árásarmannsins væri ekki gott. Hann væri í mikilli neyslu, hefði talað um geimverur og ættu í skýrslutökum hjá lögreglu erfitt með að skilja raunveruleikann.

Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×