Handbolti

„Við vinnum mjög vel saman“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hafdís Renötudóttir og Sara Sif Helgadóttir mynda markmannstvíeyki Íslands á HM.
Hafdís Renötudóttir og Sara Sif Helgadóttir mynda markmannstvíeyki Íslands á HM. vísir

Hafdís Renötudóttir er mætt á sitt þriðja stórmót með íslenska landsliðinu í handbolta og segir það ganga vel að venjast þeim miklu breytingum sem hafa orðið á hópnum.

Hafdís var ein leikmönnum landsliðsins sem lenti í veikindum í síðustu viku en hún er búin að hrista þau af sér og segir undirbúninginn hafa gengið vel síðan þá. Sem er jákvætt því það mun mikið mæða á henni á mótinu, eins og gerir yfirleitt á markvörðum, en Hafdís mætir full sjálfstrausts í fyrsta leik.

„Við erum búin að sjá nokkrar klippur með þeim og ég lít bara frekar björtum augum á þetta. Markmannsstaðan snýst bara um sjálfstraust og hugarfar, ásamt auðvitað snerpu og fleira, en maður þarf bara að vera rétt gíraður í hausnum og þá gengur vel.“

Hafdís er með nýjan makker í markmannsstöðunni. Elín Jóna Þorsteinsdóttir hefur verið markmaður landsliðsins síðustu ár en hún er utan hóps og Sara Sif Helgadóttir mun deila stöðunni með Hafdísi.

„Við vinnum mjög vel saman. Við vorum saman í Val [áður en Sara fór til Hauka] og höfum verið saman í landsliðinu, það gekk vel áður og hefur gengið vel núna. Elín Jóna er alveg að fara að eignast barn, sem er frábært og ég óska henni til hamingju. Leiðinlegt að missa hana en Sara Sif er frábær.“

Margar fleiri breytingar eru á hópnum miðað við síðasta stórmót og töluvert vantar í vörnina sem var fyrir framan Hafdísi á EM í fyrra.

„Við erum að stilla okkur saman og erum flottur hópur. Við ætlum bara að stilla okkur ennþá betur saman og með æfingunni kemur þetta. Við þurfum bara að tala vel saman og við munum spila góða vörn, ég hef fulla trú á því“ sagði Hafdís en viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan. 

Klippa: Hafdís mætt á HM með nýjan makker

Ísland hefur leik á HM á morgun, miðvikudag klukkan 17, þegar liðið mætir Þýskalandi í uppseldum opnunarleik í Porsche höllinni í Stuttgart. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×