Erlent

Drottning dýra­garðsins í San Diego er dauð

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Gramma hafði á ævi sinni séð á eftir tuttugu Bandaríkjaforsetum. 
Gramma hafði á ævi sinni séð á eftir tuttugu Bandaríkjaforsetum.  San Diego Zoo Wildlife Alliance via AP

Elsti íbúi dýragarðsins í San Diego í Bandaríkjunum, risaskjaldbakan Gramma, er nú öll. Talið er að hún hafi verið 141 árs.

Gramma kom í heiminn á Galapagos eyjum árið 1884 eða þar um bil að því er talið er en fluttist  í San Diego dýragarðinn árið 1928. Áður hafið hún búið í dýragarðinum í Bronx í New York um nokkura ára skeið.

Hún var vinsæl á meðal gesta og gekk undir nafninu Drottning Dýragarðsins og lifði í gegnum tvær heimsstyrjaldir og tuttugu Bandaríkjaforseta. Risaskjaldbökur geta auðveldlega orðið 100 ára gamlar í náttúrunni og enn eldri, jafnvel næstum tvöfalt eldri í dýragörðum.

Gestir dýragarðsins hafa margir skrifað minningarorð um Gramma og hvernig hún hafi verið fastur punktur í lífi þeirra. Þar á meðal er hin tæplega sjötuga Christina Park sem segir að sín fyrsta minning sé frá því þegar hún fékk að sitja á baki Gramma í dýragarðinum þegar hún var þriggja eða fjögurra ára gömul. 

Þrátt fyrir verða rúmlega 140 ára gömul náði Gramma ekki einusinni að slá met, því elsta risaskjaldbakan sem vitað er um var Harriet, sem bjó í dýragarði í Ástralíu og varð 175 ára áður en hún gaf upp öndina árið 2006. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×