Lífið

Þegar Dorrit var for­seta­frú

Auður Ösp Guðmundsdóttir og Vilhelm Gunnarsson skrifa
Ólafi Ragnari Grímssyni forseta var skemmt þegar Dorrit brá á leik með lukkudýri á leik FH og Hauka í handknattleik. 
Ólafi Ragnari Grímssyni forseta var skemmt þegar Dorrit brá á leik með lukkudýri á leik FH og Hauka í handknattleik.  Vísir/Vilhelm

Þegar Dorrit Moussaieff varð forsetafrú Íslands árið 2003 markaði hún upphafið að einni litríkustu forsetafrúartíð sem landið hefur séð. Dorrit, sem var fædd í Ísrael og uppalin í London, kom inn á Bessastaði með alþjóðlegan blæ og ólíkari orku en Íslendingar höfðu áður vanist.

Dorrit trúlofaðist Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands árið 2000. Þau giftu sig á afmælisdegi forsetans 14. maí 2003.

Á árunum sem forsetafrú beitti Dorrit sér fyrir því að kynna íslenska menningu og listir á alþjóðavettvangi, koma ungu íslensku listafólki á framfæri og leggja lið velferðarmálum barna og unglinga, einkum þeirra sem eiga við fötlun og geðræn vandamál að stríða. Ásamt forsetanum tekið virkan þátt í því að styrkja útrás íslenskra fyrirtækja og markaðsöflun á erlendum vettvangi.

Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Vísis smellti ófáum myndum af Dorrit við hin ýmsu tækifæri.

„Það sem stendur upp úr er hvað Dorrit var áberandi hress og opin. Það var svo sannarlega aldrei leiðinlegt í kringum hana. Hún tók sig aldrei of alvarlega; hún var alltaf til í að gera hlutina og var alveg óhrædd við að bregða á leik fyrir framan myndavélarnar,“ rifjar Vilhelm upp.

Árið 2004 veitti Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, Bill Clinton fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og Hillary Clinton, öldungardeildarþingmanni, sérstaka viðurkenningu fyrir framlag þeirra til landafundahátíðarhaldanna árið 2000. Þessa mynd af Dorrit og Hillary tók Vilhelm á Bessastöðum. „Þær tvær voru að spjalla þarna úti og þá kom svolítið rok og þá fauk kjóllinn hennar Dorritar upp. Allir hinir ljósmyndarnir sem voru þarna forðuðust að taka mynd en ég lét nú bara vaða. Hún Dorrit kippti sér lítið upp við þetta, sem segir nú töluvert um hvernig týpa hún er,“ segir Vilhelm.Vísir/Vilhelm
Þessi mynd er tekin í Ólympíuþorpinu í Peking þann 21.desember árið 2008. Dorrit hafði sest aftar í vagninn en Kínverjarnir vildu hafa hana framar svo hún klifraði yfir sætin á meðan Ólafur Ragnar fór út úr vagninum og settist svo aftur inn. „Sem var mjög klassískt fyrir hana; flestir hefðu orðið pirraðir og móðgaðir yfir því að þurfa að færa sig, en hún lét bara vaða og vippaði sér þarna yfir,“ rifjar Vilhelm upp.Vísir/Vilhelm
Logi Geirsson tók ekki eftir því að Dorrit skipti við Ingu, sem var nuddari liðsins. Vísir/Vilhelm
Afhending Eyrarrósarinnar árið 2011. „Þarna sprakk hún úr hlátri eftir að hafa lesið eitthvað vitlaust.“Vísir/Vilhelm
Dorrit Moussaieff smellir einum á Guðni Th. Jóhannesson og óskar honum til hamingju með að hafa verið kosinn forseti Íslands, þegar þau hittust í Nice í Frakklandi á Evrópumótinu í knattspyrnu, í júní árið 2016. „Þetta var í fyrsta skipti sem forsetahjón hittust síðan Kristján Eldján tók við.“Vísir/Vilhelm
Afhending Eyrarrósarinnar árið 2006.Vísir/Vilhelm
Þessi mynd var tekin í mars árið 2011. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta var skemmt þegar Dorrit brá á leik með lukkudýri á leik FH og Hauka í handknattleik. „Þessi mynd fékk hellings viðbrögð, enda er nú hægt að lesa ýmislegt í hana. Dorrit brá þarna á leik, og svona endaði þetta bara í þessu mómenti,“ rifjar Vilhelm upp.Vísir/Vilhelm
Bleiku ljósin tendruð á Bessastöðum í roki, í septemberlok árið 2005.Vísir/Vilhelm
Þessa mynd tók Vilhelm á Bessastöðum í desember árið 2011.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Þegar allt sauð upp úr

Sautján ár eru nú liðin síðan búsáhaldabyltingin náði hámarki sínu þegar Alþingi kom saman til fundar í fyrsta sinn eftir sérstakt jólafrí. Þremur mánuðum fyrr höfðu íslensku bankarnir fallið hver á fætur öðrum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.