Handbolti

Ó­lík­legt að Danir komist aftur á verð­launa­pall

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Danska landsliðið hefur staðið á verðlaunapalli á síðustu fimm stórmótum en liðið mætir laskað til leiks á HM.
Danska landsliðið hefur staðið á verðlaunapalli á síðustu fimm stórmótum en liðið mætir laskað til leiks á HM. Javier Borrego/Anadolu Agency via Getty Images

Frænkur okkar í Danmörku eru að glíma við svipuð vandamál og íslenska landsliðið fyrir HM í handbolta sem hefst í næstu viku.

Átta reynslumiklir danskir leikmenn eru fjarverandi vegna meiðsla eða barneigna og munu ekki taka þátt á HM.

Samanlögð reynsla þeirra með landsliðinu telur tæplega þúsund leiki, sem er örlítið verra en sjö hundruð landsleikja reynslan sem Ísland saknar.

Mette Tranborg og Althea Reinhardt eru þær nýjustu á meiðslalista Danmerkur en áður höfðu Mie Höjlund, Sandra Toft, Louise Burgaard, Line Haugsted, Rikke Iversen og Sarah Iversen tilkynnt að þær gætu ekki tekið þátt.

Væntingarnar lækka hjá landsliðsþjálfaranum 

Danmörk hefur unnið til verðlauna á síðustu fimm stórmótum, brons og silfur til skiptis á HM, EM og ÓL, en nú neyðist liðið líklega til að setja sér ný markmið.

„Það er augljóst að þegar svona margir reynslumiklir leikmenn detta út á milli móta þá verða væntingarnar að lækka“ sagði landsliðsþjálfarinn Helle Thomsen.

Svipað er uppi á teningunum hjá Íslandi en meðal þeirra sem fóru á EM í fyrra en fara ekki á HM í ár má nefna: Perlu Ruth Albertsdóttur, Rut Jónsdóttur, Steinunni Björnsdóttur, Sunnu Jónsdóttur og Þóreyju Rósu Stefánsdóttur.

Andrea Jacobsen er svo að glíma við meiðsli, en vonast til að geta tekið einhvern þátt í mótinu.

Þrátt fyrir það er markið sett hærra hjá Íslandi en áður. Arnar Pétursson landsliðsþjálfari hefur sagt að liðið ætli að sér að komast áfram í milliriðil í fyrsta sinn.

Danmörk verður í A-riðlinum á HM en Ísland í C-riðli. Mótið hefst næsta miðvikudag, þann 27. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×