Innlent

Er­lendum vasa­þjófum vísað úr landi

Agnar Már Másson skrifar
Varðturnar við Hallgrímskirkju vöktu mikla athygli í sumar en þeir hafa nú verið fjarlægðir.
Varðturnar við Hallgrímskirkju vöktu mikla athygli í sumar en þeir hafa nú verið fjarlægðir. Vísir/Anton Brink

Tveimur erlendum vasaþjófum var vísað úr landi í dag eftir að hafa stolið af ferðamönnum á Skólavörðuholti. Þeir komu til Íslands á miðvikudag en voru handteknir í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að tveimur erlendum karlmönnum á fertugsaldri hafi verið frávísað frá Íslandi. Þeir fara af landi brott í kvöld.

Fyrr í mánuðinum varaði lögreglan við vasaþjófum sem hefðu verið á ferð um höfuðborgarsvæðið um þær mundir. Í sumar setti lögreglan upp varðturna við Hallgrímskirkju til að bregðast við vasaþjófum en þeir hafa nú verið fjarlægðir af svæðinu.

Lögregla segir að þjófarnir hafi verið handteknir um kvöldmatarleytið í gær eftir að tilkynnt var um vasaþjófa nærri Skólavörðuholti.

Þar hafi þeir stolið tösku úr bakpoka ferðamanns en í henni hafi m.a. verið nokkur greiðslukort. Lögreglumönnum hafi tekist að endurheimta töskuna sem og kortin.

Við yfirheyrslur í dag játuðu mennirnir sök, skrifar lögreglan í tilkynningu, en verknaðurinn mun hafa náðst á myndbandsupptöku.

Þessir erlendu ríkisborgarar hafi komið til Íslands í fyrradag, en talið er að tilgangur ferðarinnar hafi verið að stunda brotastarfsemi hérlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×