Lífið

Edwald-feðgar kaupa hlið við hlið

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Ari og Páll Edwald eru báðir menntaðir lögfræðingar.
Ari og Páll Edwald eru báðir menntaðir lögfræðingar. Facebook

Ari Edwald, lögfræðingur og fyrrverandi forstjóri Mjólkursamsölunnar, hefur fest kaup á íbúð í fjölbýlishúsi í Þorraholti í Garðabæ. Sonur hans, lögfræðingurinn Páll Edwald, keypti íbúð í sama húsi ásamt kærustu sinni, Selmu Eir Hilmarsdóttur læknanema. Stigagangarnir eru hlið við hlið en húsið er fyrsta fjölbýlishúsið sem er fullbúið í nýju hverfi Hnoðraholts.

Ari hefur lengi verið áberandi í íslensku atvinnulífi. Hann var um árabil forstjóri 365 miðla, áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og þar á undan aðstoðarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra og síðar sjávarútvegsráðherra.

Páll hefur einnig komið víða við. Á meðan hann stundaði laganám stofnaði hann bar og pizzustað á Egilsstöðum og hefur síðustu þrjú ár starfað sem yfirlögfræðingur hjá byggingarfélaginu Reir Verk, sem byggði umræddar íbúðir. Foreldrar áðurnefndrar Selmu Eirar eru eigendur Reir Verks. 

Hönnun og fallegt útsýni 

Húsið er nýtt lyftuhús með samtals 49 íbúðum í þremur stigagöngum. Innanhússhönnun var í höndum Bjarka Snæs Smárasonar, sem valdi liti, efni og innréttingar sem gefa heildarmyndinni klassískt og látlaust yfirbragð.

Íbúð Ara er 165 fermetrar að stærð á efstu og fjórðu hæð, með glæsilegu útsýni. Stofurýmið er opið og bjart og þaðan er útgengt á rúmgóðar og yfirbyggðar þaksvalir með tengi fyrir heitum potti. Í íbúðinni eru þrjú svefnherbergi, þar af hjónasvíta með sérbaðherbergi og fataherbergi. Kaupverðið nam 183 milljónum króna.

Íbúð Páls og Selmu Eirar er 82,5 fermetrar á þriðju og efstu hæð í stigaganginum við hliðina á. Eignin skiptist í opið og bjart stofurými, tvö svefnherbergi og baðherbergi. Kaupverðið nam 79,9 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.