Erlent

Gerði lítið úr morðinu á Khashoggi á blaða­manna­fundi með bin Salman

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það fór vel á með krónprinsinum og forsetanum í Hvíta húsinu í gær.
Það fór vel á með krónprinsinum og forsetanum í Hvíta húsinu í gær. Getty/Win McNamee

Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði lítið úr morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi þegar hann tók á móti Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu, í Hvíta húsinu í gær.

Krónprinsinn var spurður út í morðið á sameiginlegum blaðamannafundi, þar sem blaðamaður ABC News benti meðal annars á að það hefði verið niðurstaða bandarískra yfirvalda að hann hefði fyrirskipað morðið.

Trump greip inn í og byrjaði á því að kalla ABC „fake news“, falsfréttastofu, og sagði því næst að Khashoggi, sem starfaði meðal annars fyrir Washington Post, hefði verið afar „umdeildur“.

„Mörgum líkaði ekki við þennan herramann sem þú ert að tala um. Hvort sem þér líkaði við hann eða ekki, hlutir gerast, en hann hafði enga vitneskju um það,“ sagði Trump og benti á bin Salman.

Leiðtogarnir tilkynntu að Sádi Arabar hygðust fjárfesta fyrir um 600 milljarða dala í Bandaríkjunum og þá staðfesti Trump að hann hefði í hyggju að selja þeim F-35 herþotur.

Fyrirhuguð sala er nokkuð umdeild og hefur meðal annars vakið áhyggjur í Ísrael en Ísraelsmenn hafa hingað til verið eina þjóðin í Mið-Austurlöndum sem hefur búið að vélunum.

Efnt var til kvöldverðar krónprinsinum til heiðurs, þar sem meðal annarra voru viðstaddir Elon Musk, Tim Cook, forstjóri Apple, og Jensen Huang, forstjóri Nvidia, en þess má geta að Sádarnir eru sagðir áhugasamir um að fjárfesta í gervigreindar innviðum í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×