Lífið

„Þetta er þér að kenna“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir fer um víðan völl í spjalli sínu við Sindra Sindrason
Katrín Jakobsdóttir fer um víðan völl í spjalli sínu við Sindra Sindrason

Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur lítið talað opinberlega um það hvernig síðustu dagar hennar í ríkisstjórn voru, hvernig samstarfsfólk hennar kom fram við hana, eða hvernig henni leið þegar hún var síðan ekki kosin forseti Íslands.

Sindri Sindrason ræddi við Katrínu um allt þetta í Íslandi í dag á Sýn í gærkvöldi.

Hún er nú óbreyttur borgari sem á að tjá sig eins og hana lystir og er tilbúin að nýta sér það frelsi eins og við heyrum hér á eftir. Sindri hitti hana á dögunum í Hörpu þar sem Heimsþing kvenleiðtoga fór fram á og hún tók að sjálfsögðu þátt í.

„Þetta er auðvitað á þessum tíma þar sem ég er virkilega að hugsa minn gang og það auðvitað spratt ekki upp úr engu. Ég var búin að vera að velta því fyrir mér töluvert lengi hvort ég ætti að bjóða mig fram aftur til þings, var í raun búin að taka ákvörðun um að ég hygðist ekki gera það. Svo var ég búin að fá mikla hvatningu um að fara í forsetaframboð og vissi alltaf að það yrði áhættusamt.“

Hún segist samt sem áður aldrei hafa séð eftir þeirri ákvörðun.

„En ég man samt að þarna var alls konar að brjótast um, því það er auðvitað þannig að þegar maður er búinn að vera í pólitík í tuttugu ár. Ég byrjaði í stúdentapólitík, fór svo í borgarpólitík, ég var sautján ár á Alþingi og svo fjögurra ára menntamálaráðherra og á sjöunda ár forsætisráðherra. Þannig að þetta er ofboðslega langur tími sem er ekki bara starf heldur líf. Þannig að líf manns er algjörlega undirlagt, maður er á vaktinni alltaf.“

Hún segist hafa þurft að hugsa sig vel og mikið um áður en hún tók endanlega ákvörðun. VG átti í vandræðum eftir að hún yfirgaf flokkinn.

„Ég held kannski að það sé einföldun. Ég hef auðvitað velt líka fyrir mér, bíddu, gerði ég eitthvað af mér með því að fara? Það er auðvitað ekki þannig að nokkur stjórnmálaflokkur sé ein manneskja. Stjórnmálaflokkurinn er enn þá til og í honum eru enn þá þúsundir félaga, þannig að ég hef nú fulla trú á því að þau eigi eftir að finna sína fjöl .“

Hún segir að þátttaka flokka í ríkisstjórn hafi alltaf neikvæð áhrif.

„Ákveðin svona sveifla í samfélaginu, hægri sveifla, sem hafði auðvitað áhrif ekki bara á VG heldur Sósíalistaflokkinn og Pírata. Þannig að ég held að þarna hafi margt komið saman. En vissulega hefur alveg verið sagt við mig, „Þetta er þér að kenna.“

Skipti ég engu máli?

Sindri spyr Katrínu hvernig það hafi verið að eftir forsetakosningar og mörg ár í pólitík að allt í einu stoppi síminn að hringja.

„Það var ótrúlega skrítið. Því þú ert búinn að vera einhvern veginn alltaf á vaktinni. Eins og ég segi, þetta er lífið. Það er alltaf eitthvað að koma upp, það er alltaf eldgos, það er alltaf heimsfaraldur eða eitthvað. Og ég man alveg eftir tilfinningunni. Ég fór í frí, sumarfrí, fór í hjólaferð. Og öll mín sumarfrí, það hafði alltaf verið eitthvað, það var alltaf einhver hringing. Maður bara hjólaði og hjólaði og svo stoppaði maður til að borða hádegismat og tók upp símann og það var ekkert, kannski í mesta lagi nokkur skilaboð frá vinkonunum eitthvað að pæla í einhverju skemmtilegu. Ég hugsaði, ætli þetta sé svona hjá öðrum? eða skipti ég engu máli?“

Hér að ofan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.