Handbolti

Eyjamaðurinn vann öflugan Framara í Sví­þjóð

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Viðarsson fagnaði sigri með Karlskrona í kvöld.
Arnór Viðarsson fagnaði sigri með Karlskrona í kvöld. Karlskrona

Á meðan að ÍBV og Fram mættust í Olís-deildinni í Eyjum í kvöld áttust uppalinn Eyjamaður og uppalinn Framari við í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta. Þar hafði Eyjamaðurinn betur.

Um var að ræða leik Amo og Karlskrona í Svíþjóð þar sem gestirnir í Karlskrona fögnuðu öruggum sigri að lokum, 37-30.

Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson skoraði fimm mörk úr tíu skotum fyrir Karlskrona og var á meðal markahæstu manna í liðinu.

Framarinn Arnar Birkir Hálfdánsson var í algjöru lykilhlutverki hjá Amo og skoraði meðal annars í lok fyrri hálfleiks þegar hann kom liðinu yfir, 16-15. Arnar skoraði sex mörk úr átta skotum og átti fjórar stoðsendingar en náði þó ekki að koma í veg fyrir að Karlskrona næði fljótt góðu forskoti í seinni hálfleiknum.

Ólafur Guðmundsson var ekki með Karlskrona í kvöld en hann glímir enn við meiðsli.

Þetta var annar sigur Karlskrona í röð og er liðið í 5. sæti af 14 liðum með 12 stig eftir 10 leiki. Amo er í 10. sæti með 9 stig eftir 11 leiki.

Blær kom að sjö mörkum í tapi

Í Þýskalandi varð Blær Hinriksson að sætta sig við tap með Leipzig gegn Minden á útivelli, 32-26. Blær skoraði tvö mörk í leiknum en átti einnig fimm stoðsendingar eða flestar allra í liði Leipzig.

Leipzig er því enn á botni efstu deildarinnar í Þýskalandi, án sigurs en með tvö stig. Minden er fjórum sætum ofar, í 14. sæti með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×