Tónlist

Tók málin í eigin hendur og stofnaði nýja metal-hátíð á Sel­fossi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Rúnar Hroði nennti ekki að bíða eftir því að aðrir myndu búa til þungarokkshátíð svo hann gerði það sjálfur.
Rúnar Hroði nennti ekki að bíða eftir því að aðrir myndu búa til þungarokkshátíð svo hann gerði það sjálfur.

Nýstofnaða metal-hátíðin Hellfoss fer fram í Sviðinu í nýjum miðbæ Selfoss helgina 6. til 7. febrúar 2026. Meðal hljómsveita sem koma þar fram eru Misþyrming, Volcanova og Forgarður helvítis auk fjölda annarra.

Einkaþjálfarinn Rúnar Hroði Geirmundsson er skipuleggjandi hátíðarinnar en hann ákvað að taka málin í eigin hendur frekar en að bíða eftir því að aðrir myndu auðga grósku metalsenunnar með nýrri metal-hátíð.

Rúnar Hroði er fyrrverandi keppandi í kraftlyftingum.Sýn

„Þetta hefur tekið nokkra mánuði að púsla saman, en nú er loksins komið að því að opna fyrir miðasöluna. Við ætlum að skapa hátíð með karakter, þar sem tónlistin, menningin og stemningin tala saman,“ segir Rúnar um hátíðina.

„Þungarokk er eitthvað sem situr á hakanum og hefur verið undanhaldi á Íslandi síðustu ár. Við eigum frábært tónlistarfólk en tækifærin eru ekki nægilega mörg,“ segir hann.

„Í staðinn fyrir að segja alltaf að það þurfi breytingu á þessu og að það vanti fleiri hátíðir, þá ætla ég bara að vera breytingin og láta nýja tónlistarhátíð verða að veruleika, í fallegasta miðbæ landsins.“

Tíu þekktar metal-hljómsveitir munu troða upp á hátíðinni: Misþyrming, Forgarður helvítis, Devine Defilement, Une, Volcanova, Auðn, Mercy Buckets, Showguilt, Slysh og False Majesty.

Fyrir tónleika er gestum boðið að koma saman á Hæðinni fyrir ofan Miðbar í miðbæ Selfoss. Þar verður tattústofa, bíósalur þar sem sýndar verða heimildarmyndir um metal-menningu og sala á hátíðarvarningi frá Handverkshúsinu.

Miðasala fyrir hátíðina hefst á hádegi á morgun á Tix.is þar sem er einnig hægt að kynna sér dagskrána betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.