Handbolti

Arnar hitti úr öllu og Þor­steinn hamraði á markið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Línumaðurinn var óstöðvandi í kvöld. 
Línumaðurinn var óstöðvandi í kvöld.  Johan Nilsson/TT via AP

Línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson hitti úr öllum sex skotum sínum í 33-27 sigri Melsungen gegn FTC í Evrópudeild karla í handbolta. Þorsteinn Leó Gunnarsson var líka markahæstur, með níu mörk í 25-29 sigri Porto á útivelli gegn Elverum.

Arnar átti sína kafla um miðbik fyrri og seinni hálfleiks, þar sem hann skoraði sitthvor þrjú mörkin með skömmu millibili. Þýsku meistararnir voru ekki í miklum vandræðum með ungverska liðið og unnu öruggan sex marka sigur.

Melsungen er með fullt hús stiga á toppnum á E-riðli en Benfica, lið Stivens Tobar Valencia, er í öðru sætinu og getur saxað á forystuna með sigri síðar í kvöld gegn Karlskrona, liði Ólafs Guðmundssonar og Arnórs Viðarssonar.

Þorsteinn Leó var sjóðheitur í sigri Porto og skoraði níu mörk, sex þeirra fyrir utan teiginn, auk þess að gefa tvær stoðsendingar.

Þorsteinn Leó Gunnarsson lék með Porto í kvöld.vísir/Anton

Porto átti frábært áhlaup í upphafi seinni hálfleiks sem fór mjög langt með að tryggja liðinu sigurinn. Porto skoraði þá fyrstu fimm mörk hálfleiksins og breytti stöðunni úr 12-14 í 12-19. Lokatölur 25-29 og Þorsteinn skoraði síðustu þrjú mörk Porto.

Porto er með fullt hús stiga á toppi D-riðils en Elverum er með tvö stig og situr í þriðja sæti, fyrir ofan Fram en fyrir neðan svissneska liðið Kriens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×