Innlent

Lestir 205 steypubíla fóru í nýja brú yfir Breið­holts­braut

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Áfram verður lokað fyrir umferð að næturlagi.
Áfram verður lokað fyrir umferð að næturlagi. Vegagerðin

Steypuvinnu við nýja Breiðholtsbraut er lokið og gekk vel að sögn Vegagerðarinnar. Opnað verður fyrir umferð í fyrramálið. Alls fóru 1650 rúmmetrar af steypu í brúna sem nemur 205 steypubílum.

Breiðholtsbraut milli Jaðarsels og Vatnsendahvarfs verður áfram lokuð fyrir alla umferð þar til klukkan fimm í fyrramálið. Lokað hefur verið fyrir umferð frá því á föstudag vegna steypuvinnunnar.

Næstu tíu til fjórtán daga verður þessi sami kafli lokaður á nóttunni, frá klukkan tíu á kvöldin til klukkan hálf sjö á morgnana. Hæðartakmarkanir verða fjórir metrar þegar opnað verður fyrir umferð á ný vegna þeirrar miklu slysahættu sem getur skapast sé ekið á brúna, bæði fyrir ökumenn og starfsfólk á svæðinu.

Vegagerðin ítrekar í tilkynningu að mjög mikilvægt er að verktakar, flutningsaðilar sem og aðrir virði hæðartakmarkanir svo ekki verði slys á fólki eða skemmdir á brúnni. Hámarkshraði hefur verið lækkaður í 30 km/klst á meðan unnið er við brúna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×