Tónlist

Ekkert rapplag á topp 40 í fyrsta sinn í 35 ár

Atli Ísleifsson skrifar
Kendrick Lamar og lag hans Luther er ekki lengur í hópi efstu fjörutíu lagananna á Billboard-listanum.
Kendrick Lamar og lag hans Luther er ekki lengur í hópi efstu fjörutíu lagananna á Billboard-listanum. EPA

Í fyrsta sinn í 35 ár hefur það gerst að ekkert rapplag er að finna í einu af fjörutíu efstu sætum bandaríska Billboard-vinsældalistans.

Rolling Stone greinir frá þessu en þetta gerðist þegar lagið Luther með Kendricks Lamar og SZA féll úr topp 40. Lagið hafði verið á topplistanum í 46 vikur og þar af þrettán á toppi listans.

Efsta rapplagið á listanum er nú lagið Shot Callin með rapparanum YoungBoy Never Broke Again, en lagið skipar 43. sæti Billboard-listans.

Billboard hefur að undanförnu gert breytingar á því hvernig lög raðast á listann og eru þær sagðar eiga þátt í því að rapplög eigi erfiðara um vik að skora hátt. Það breytir því þó ekki að eitthvað hefur dregið úr vinsældum rapptónlistarinnar.

Markaðshlutdeild rapptónlistar hefur hægt og bítandi dregist saman á síðustu árum. Þannig var hlutdeildin 30 prósent árið 2020 og var komin í 25 prósent þremur árum síðar og er nú 24 prósent. Enn fremur segir að í þessari sömu viku árið 2020 hafi sextán rapplög verið á listanum, en 2023 voru þau átta.

Tónlistarkonan Taylor Swift á fjögur af sex efstu lögum listans, þar með talið The Fate of Ophelia sem skipar efsta sæti listans. Öll tólf lögin á nýjustu plötu Swift, The Life of a Showgirl, eru nú á topp 40 á Billboard-listanum.

Aðrir tónlistarmenn sem eiga nú lög ofarlega á Billboard-listanum eru Morgan Wallen, HUNTR/X, Olivia Dean, Kehlani og Alex Warren.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.