Viðskipti innlent

Leigj­endum muni fjölga um fimm þúsund fram til 2030

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að um 28 prósent fullorðinna búi í leiguhúsnæði, eða um 85 þúsund manns.
Áætlað er að um 28 prósent fullorðinna búi í leiguhúsnæði, eða um 85 þúsund manns. Vísir/Vilhelm

Gera má ráð fyrir að um 50 þúsund heimili séu á leigumarkaði hér á landi og má ætla að þeim gæti fjölgað um fjögur til sex þúsund á næstu fimm árum.

Þetta kemur fram í frétt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en spá stofnunarinnar tekur tillit til stöðu aðfluttra á leigumarkaði og byggir á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Áætlað er að um 28 prósent fullorðinna búi í leiguhúsnæði, eða um 85 þúsund manns.

Á vef HMS segir að stærð leigumarkaðar hér á landi hafi verið verulega vanmetin þar sem búsetumælingar hafi ekki náð til aðfluttra íbúa nema að takmörkuðu leyti.

„Nýlega lét HMS framkvæma sérstaka búsetumælingu meðal aðfluttra félagsmanna þriggja stéttarfélaga og í ljós kom að um 74% aðfluttra eru á leigumarkaði hér á landi samanborið við um 15% innfæddra íbúa.

Að teknu tilliti til búsetu aðfluttra íbúa má ætla að um 28% fullorðinna búi í leiguhúsnæði, eða um 85 þúsund manns. Miðað við niðurstöður úr ársfjórðungslegum búsetumælingum má ætla að um 23% barna búi í leiguhúsnæði en um 76% búi í eignarhúsnæði. Heildarfjöldi íbúa á leigumarkaði gæti því verið í kringum 105 þúsund manns í ár.

Samkvæmt árlegri leigumarkaðskönnun HMS fyrir árið 2025 bjuggu að meðaltali 2,1 einstaklingur í hverri leiguíbúð. Þar af leiðandi má gera ráð fyrir að um það bil 50 þúsund heimili séu á leigumarkaði hér á landi í ár.

Fyrra mat HMS á fjölda heimila á leigumarkaði hljóðaði upp á u.þ.b. 35 þúsund íbúðir, en fjölgunin skýrist einna helst af því að fleiri eru á leigumarkaði en áður var talið. Þá er einnig rétt að nefna að fjöldi heimila á leigumarkaði stendur ekki endilega í beinu sambandi við opinbera talningu á fjölda íbúða. Þetta er vegna þess að í sumum tilvikum er verið að leigja húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði auk þess sem í öðrum tilfellum er einungis verið að leigja hluta úr fasteign,“ segir á vef HMS.

Gætu orðið allt að 56 þúsund árið 2030

Miðað við nýja mannfjöldaspá Hagstofu Íslands áætlar HMS að heimilum á leigumarkaði gæti fjölgað um 4.400 til sex þúsund á næstu fimm árum.

HMS

„Spáin byggir á óbreyttu hlutfalli fullorðinna einstaklinga á leigumarkaði eftir aldursbilum út spátímabilið auk þess sem miðað er við óbreytta meðalheimilisstærð á leigumarkaði og að búseta barna dreifist með sambærilegum hætti á milli leigu- og eignarhúsnæðis og í dag.

Hagstofa Íslands gefur út háspá, miðspá og lágspá fyrir mannfjöldaþróun sem leiðir af sér háspá, miðspá og lágspá HMS um stærð leigumarkaðar fram til ársins 2030,“ segir á vef HMS.


Tengdar fréttir

Séreignarleiðin gerð varanleg og nýtist til tíu ára

Fólk fær áfram að ráðstafa séreignarsparnaði sínum skattfrjálst inn á fasteignalán með 10 ára nýtingartímabili, samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Annar húsnæðispakki verður kynntur á nýju ári, að sögn ríkisstjórnarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×