Erlent

Vill hefja til­raunir með kjarna­vopn að nýju

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Myndin sýnir kjarnorkutilraun sem gerð var ofanjarðar árið 1957 í Nevada í Bandaríkjunum.
Myndin sýnir kjarnorkutilraun sem gerð var ofanjarðar árið 1957 í Nevada í Bandaríkjunum. U.S. Energy Department via AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nú fyrirskipað Bandaríkjaher að hefja að nýju tilraunir með kjarnorkuvopn en slíkar tilraunir hafa ekki verið gerðar í rúm þrjátíu ár.

Trump vill taka slíkar tilraunir upp að nýju, til þess að halda í við ríki á borð við Rússland og Kína sem hann segir að séu að þróa slík vopn af mun meiri ákafa en Bandaríkjamenn. Þetta kemur fram í færslu frá forsetanum á samfélagsmiðli hans og birtist færslan skömmu áður en hann hitti Xi Jinping forseta Kína í Suður-Kóreu í nótt.

Á dögunum fordæmdi Trump prófanir Rússa á nýrri stýriflaug sem er kjarnorkuknúin, og getur því flogið lengra en nokkrar aðrar slíkar flaugar. Þar var þó ekki um að ræða kjarnorkutilraun í þeirri merkingu að sprengja kjarnasprengju, eins og tíðkaðist fyrr á árum. 

Kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjamanna og Rússa eru sögð nokkuð áþekk að stærð en Trump segir ljóst að Kínverjar séu á hraðri leið með að ná hinum ríkjunum tveimur þegar kemur að þessum málum og að við því verði að bregðast.

Bandaríkjamenn gerðu síðast kjarnorkutilraun árið 1992, neðanjarðar í Nevada, en skömmu síðar bannaði George Bush eldri slíkar tilraunir. Ekki er ljóst hvar, hvenær eða með hvaða hætti tilraunirnar verða gerðar að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×