Handbolti

Rekinn fyrir um­mæli sín um krabba­meins­sjúka hand­bolta­goðsögn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilla Herrem í leik með Sola HK í Evrópukeppninni.
Camilla Herrem í leik með Sola HK í Evrópukeppninni. EPA/Tibor Illyes

Vallarþulur var rekinn úr starfi sínu eftir að hann lét umdeild ummæli fjalla um eina af stærstu handboltagoðsögnum Noregs.

Hann grínaðist á afar óheppilegan hátt á kostnað hinnar krabbameinssjúku Camillu Herrem en hún greindist með brjóstakrabbamein í júní. NRK segir frá.

Tom Gulliksen var vallarþulur hjá Gjerpen sem fékk Camillu Herrem og félaga í Sola í heimsókn.

@Sportbladet

Norska handboltafélagið tilkynnti á vefsíðu sinni að Gulliksen væri nú hættur störfum fyrir félagið.

Atburðurinn átti sér stað í leik Gjerpen og Sola, liðs Camillu Herrem, þann 21. október síðastliðinn. Í tengslum við leikinn var Herrem heiðruð með blómum, en vallarþulurinn sagði í hátalarkerfið:

„Það er auðvelt með hárgreiðsluna því þú þarft ekki einu sinni hárþurrku,“ sagði Gulliksen en Herrem er sköllótt þar sem hún missti allt hárið sitt við lyfjameðferðina.

Bæði vallarþulurinn og Gjerpen hafa síðan beðist afsökunar og bæði Sola og Herrem hafa tekið við þeirri afsökunarbeiðni

„Þetta var mjög óheppileg athugasemd. Við ræddum þetta við Gjerpen um kvöldið og þeir tóku á því og lýstu yfir eftirsjá sinni. Málið er búið hjá okkur,“ sagði Steffen Stegavik, þjálfari Sola, en hann er einnig eiginmaður Herrems.

Hin 39 ára gamla Camilla Herrem sagði í júní að hún hefði fengið greiningu á brjóstakrabbameini. Hún hefur síðan gengist undir röð lyfjameðferðar en gat snúið aftur á völlinn í ágúst aðeins nokkrum dögum eftir að lyfjagjöfinni lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×