Sport

Há­grét eftir heims­meistara­titil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Torres Barceló hágrét eftir að sigurinn var í höfn og fór síðan til fjölskyldu sinnar í stúkunni.
Albert Torres Barceló hágrét eftir að sigurinn var í höfn og fór síðan til fjölskyldu sinnar í stúkunni. Skjámynd/@teledeportertve

Tilfinningarnar flæddu heldur betur út hjá spænska hjólreiðamanninum Albert Torres eftir að hann tryggði sér heimsmeistaratitilinn í brautarhjólreiðum.

Hinn 35 ára gamli Torres hafði misst naumlega af gullinu á heimsmeistaramótinu fyrir tveimur árum en nú tókst honum að komast fyrstur í mark.

Mótið fór fram í Santiago í Síle.

Það munaði gríðarlega litlu á fyrstu mönnum og því var Torres ekki alveg viss um að hann hefði náð gullverðlaununum.

Árangur hans í lokahlutanum tryggði honum nægilega mörg stig til að vinna gullið. Japaninn Kazushige Kuboki varð tveimur stigum á eftir og Belginn Lindsay De Vylder varð þriðji með jafnmörg stig og sá japanski.

Torres hafði orðið heimsmeistari áður en síðan voru liðin ellefu ár. Nú orðinn 35 ára var þetta eitt af síðustu tækifærum hans til að vinna aftur gullið.

Nú vann hann líka í fyrsta sinn síðan hann eignaðist barnið sitt.

Viðbrögðin hans voru mjög dramatísk og vöktu athygli. Torres hágrét hreinlega eftir heimsmeistaratitilinn og fór til konu sinnar og sonar til að fagna miklu afreki.

Hann fagnaði líka með fjölskyldu sinni á verðlaunapallinum. Mögnuð stund fyrir hann og fjölskylduna sem vissi best hvað hann hafði lagt mikið á sig.

Hér fyrir neðan má sjá þessar dramatísku sekúndur eftir að Torres kom fyrstur í markið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×