Innlent

Hinna látnu minnst í Flateyrarkirkju

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Íbúar á Flateyri koma saman í Flateyrarkirkju klukkan 15:00 í dag.
Íbúar á Flateyri koma saman í Flateyrarkirkju klukkan 15:00 í dag. Vísir/Egill

Minningarstund fer fram í Flateyrarkirkju í dag í tilefni þess að þrjátíu ár eru liðin frá því að tuttugu manns létust þar í snjóflóði. Sóknarprestur segir það gefa samfélaginu mikið að finna samhug þjóðarinnar, sorg sé í lofti í bænum í dag.

Snjóflóðið sem féll á Flateyri fyrir sléttum þrjátíu árum er eitt það mannskæðasta sem fallið hefur á Íslandi. Tuttugu íbúar á aldrinum eins árs til 72 ára létu lífið eftir að flóðið rann ofan úr Skollahvilft rétt um klukkan fjögur aðfaranótt 26. október 1995.

Fjórum var bjargað úr húsum sem grófust undir snjónum, þeim síðustu níu klukkustundum eftir að flóðið féll. Að auki björguðust 22 íbúar af sjálfsdáðum úr húsum sem flóðið lenti á. Minningarstund fer fram í Flateyrarkirkju klukkan þrjú í dag og hana leiðir séra Fjölnir Ásbjörnsson.

„Við höfum náttúrulega komið saman á þessum degi. Nú eru þrjátíu ár og við munum byrja náttúrulega á svona, þetta verður hefðbundin helgistund, ég mun lesa upp nöfn þeirra sem fórust og það verður kveikt á kerti og síðan verður leikin tónlist í kirkjunni. Þetta verður örugglega bara indælis stund, minningar og helgistund.“

Það hafi mikla þýðingu fyrir íbúa að koma saman á þessum degi. Að minningarstund lokinni verður boðið upp á kaffi og meðlæti í Samkomuhúsinu. „Flateyri er yndislegt. Það er yndislegt samfélag á Flateyri. Hluti af því er einmitt að minnast þess liðna en líka horfa til framtíðar. Ég held að við eigum bæði merkilega fortíð og mikla framtíð á Vestfjörðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×