Erlent

Trump slaufar öllum við­ræðum við Kanada út af sjón­varps­aug­lýsingu sem fór fyrir brjóstið á honum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Forsætisráðherra Kanada, Mark Carney hefur undanfarið átt í viðræðum við Trump um breytingar á tollastefnu Bandaríkjanna en nú er snurða hlaupin á þráðinn. 
Forsætisráðherra Kanada, Mark Carney hefur undanfarið átt í viðræðum við Trump um breytingar á tollastefnu Bandaríkjanna en nú er snurða hlaupin á þráðinn.  Photo by Evan Vucci - Pool / Getty Images

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vera hættur öllum viðræðum við Kanadamenn um tolla og viðskipti á milli landanna. Ástæðan er auglýsing sem sýnd hefur verið í Kanada þar sem tollahækkanir Trumps eru harðlega gagnrýndar.

Auglýsingin var gerð af stjórnvöldum í Ontario fylki og þar er meðal annars vitnað í orð fyrirrennara Trumps, Ronalds Reagan, þar sem hann segir að tollar komi sér illa fyrir alla Bandaríkjamenn.

Trump var fljótur til að tjá sig á samfélagsmiðli sínum eftir að hann sá auglýsinguna. Hann sagði að hún væri fölsuð og hneykslanleg og forsetinn bætti svo við í hástöfum að öllum frekari viðræðum á milli landanna væri nú hér með lokið. Trump setti á sínum tíma 35 prósenta toll á margar kanadískar vörur og enn hærri á hluti eins og stál og bílainnflutning.

Ontario fylki hefur farið sérstaklega illa út úr þessum tollum og hafa stjórnvöld fundað undanfarið um lausn á málum.

Ronald Reagan sjóðurinn, sem sér um að halda á lofti arfleifð Reagans hefur einnig brugðist við auglýsingunni og sagt að orð hans séu þar tekin úr samhengi, án þess að það sé útskýrt nánar en ávarp forsetans, sem hann flutti í útvarp árið 1985 má sjá hér að neðan.

Sjóðurinn segist nú vera að skoða lagalega stöðu sína í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×